Áfangasigur í erfiðu umhverfi

Gjaldeyrishöft, lítill vöxtur í efnahagslífi Vesturlanda og minnkandi uppsveifla í Kína er allt til þess fallið að halda aftur af erlendri fjárfestingu á Íslandi.

Það er því jákvætt að undanfarin misseri hafa nokkur iðnfyrirtæki tekið þá ákvörðun að byggja upp framleiðslu hér á landi. Sú fjárfesting mun bæði skapa gjaldeyrisinnflæði og ný störf. Einnig stuðlar þetta að meiri fjölbreytni í hópi viðskiptavina íslensku orkufyrirtækjanna, sem ætti að draga úr áhættu í rekstri þeirra.

Það er líka jákvætt að sjá vaxandi áhuga á að fjárfesta á Íslandi núna á sama tíma og nokkur afturkippur virðist kominn í þann mikla áhuga sem fyrirtæki sýndu norðurslóðum upp úr 2010. Þegar litið er til næstu 5-10 ára virðist t.d. sem lítið kunni að verða úr þeirri vaxandi olíuleit á Norðurslóðum sem allt virtist stefna í fyrir stuttu síðan.

Sólarkísiliðnaður er áhugaverð viðbót

Iðnfyrirtækin sem undnafarið hafa tilkynnt um nýfjárfestingu hér á landi eru fyrst og fremst í kísiliðnaði. Þetta er góð viðbót við orkukaupendahópinn. Líklegt að raforkuverðið sem þessi fyrirtæki greiða verði umtalsvert hærra en verið hefur hjá stóriðjunni hér til þessa. Tilkoma kísilveranna er því skref í átt að stígandi arðsemi í raforkugeiranum. Og það er ánægjulegt að þetta skref skuli vera að nást í nokkuð erfiðu árferði í viðskiptalífinu víða um heim og fremur óhagstæðu skattaumhverfi hér á landi.

Umrædd kísilverkefni eru fjögur talsins. Þau eru mislangt komin og vissulega ekki ennþá fullvíst að þau verði öll að veruleika. Verkefnin fjögur eru (í stafrófsröð):  PCC á Bakka við Húsavík, Silicor Materials á Grundartanga, Thorsil í Helguvík og United Silicon í Helguvík. Verkefni Silicor Materials er reyndar svolítið sér á parti, því þar er um að ræða meiri hátækniframleiðslu en hjá hinum fyrirtækjunum þremur.

Jafnvel þó svo einungis eitt eða tvö verkefnanna yrðu að veruleika er þarna um að ræða áhugaverða viðbót í íslenska atvinnustarfsemi. Það er mikilvægt að auka fjölbreytni viðskiptavina orkufyrirtækjanna. Í fyrsta lagi dregur það úr áhættu þeirra, heldur en t.d. ef enn verið væri að auka raforkusölu til álframleiðslu. Í öðru lagi er þetta til þess fallið að breiðari vitneskja skapist meðal erlendra fyrirtækja og fjárfesta, um að Ísland sé athyglisverður kostur til að staðsetja nýja framleiðslu eða þjónustu þar sem raforka er þýðingamikill útgjaldaliður.

Arion banki, Landsnet, Landsvirkjun og Mannvit í lykilhlutverkum 

Ekki er unnt að fullyrða hvað af þessum umræddum fjórum verkefnum er lengst komið eða er líklegast til að verða fyrst að veruleika. Það mun væntanlega skýrast á næstu misserum. Orkuþörfin er mest hjá Silicor Materials og Thorsil; hvort þeirra þarf afl sem nemur nálægt 85 MW. Það eru því fyrst og fremst þau verkefni sem myndu kalla á nýjar virkjanaframkvæmdir.

PCC og United Silicon hafa lokið gerð orkusölusamninga við Landsvirkjun og einnig samningum við Landsnet vegna orkuflutninga (samningar við PCC eru þó ennþá háðir fyrirvörum sem ekki er búið að aflétta). Aflþörf PCC er um 50 MW og aflþörf  United Silicon um 35 MW. Það kann að vekja athygli hversu verkefni United Silicon er lítið. Skýringin er sú að þar er gert ráð fyrir einungis einum ofni í upphafi, en að mögulega verði svo bætt við allt að þremur ofnum í viðbót. 

Þessar framkvæmdir hafa margvísleg jákvæð áhrif fyrir íslenskt atvinnulíf. Af fréttum má sjá að að Arion banki gegnir mikilvægu hlutverki í fjármögnun United Silicon. Og að bankinn hefur einnig samið við Silicor Materials vegna fjármögnunar þess stóra verkefnis. Verkfræðifyrirtækið Mannvit hefur samið um hönnun á verksmiðju Thorsil og það verkefni virðist líta vel út þó svo orkusölusamningur sé ennþá ekki fullfrágenginn. Fleiri verkfræðifyrirtæki hafa komið að undirbúningi þessara framkvæmda. Þannig kemur Verkís að verkefni United Silicon.

Af nýlegri ræðu stjórnarformanns Landsvirkjunar og fréttum má ráða að Landsvirkjun á nú í viðræðum við ýmis önnur fyrirtæki um orkuviðskipti en þau sem hér hafa verið nefnd. Það lítur sem sagt út fyrir að það sé töluverð eftirspurn eftir íslenskri raforku - og þar ekki bara um að ræða einn mögulegan risastóran kaupanda heldur nokkra smærri sem þurfa að keppa um orkuna. Þetta eru aðstæður sem líklega hafa aldrei áður þekkst hér á landi og styrkja samningsstöðu orkufyrirtækjanna hér verulega. 

Þessa eftirsóknarverðu stöðu má sennilega fyrst og fremst þakka þeirri stefnu og áherslum sem Landsvirkjun hefur starfað eftir síðustu árin. Í því felst m.a. „að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir“ með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Þarna hefur sem sagt sérstök áhersla verið lögð á arðsemina. Í því felst m.a. víðtækari kynning á Íslandi sem góðum kosti fyrir margskonar atvinnustarfsemi sem reiðir sig á áreiðanlega raforkuframleiðslu og -afhendingu á samkeppnishæfu verði. 

Flest okkar líta Ísland jákvæðum augum og álítum eflaust mörg að t.a.m. íslensk raforka og íslenskt rekstrarumhverfi sé alþekkt um víða veröld. Vissulega hefur áliðnaðurinn vitað vel af Íslandi um langt skeið. En það er alls ekki sjálfsagt mál að hin ýmsu fyrirtæki úti í heimi hugsi til Íslands sem staðsetningar fyrir framleiðslu sína (sbr. sólarkísilver) eða þjónustu (sbr. gagnaver). Þess vegna er mikilvægt að kynningarstarf íslenskra fyrirtækja og stjórnvalda hefur í ríkara mæli verið að beinast að fleiri og fjölbreyttari atvinnugreinum - sem er til þess fallið að auka arðsemi í orkuframleiðslunni hér. Svo er mikilvægt að vanmeta ekki mikilvægi þess að raforkuflutningskerfið sé sterkt. Þess vegna er áríðandi að stjórnvöld svari kalli Landsnets um skýra framtíðarsýn gagnvart uppbyggingunni þar.

Hagstæðara skattaumhverfi aðkallandi 

Þarna hefur líka hjálpað til sá fjárfestingarammi sem Alþingi og stjórnvöld hafa mótað. Þar mætti þó bæta umhverfið meira. Ennþá er t.d. virðisaukaskattkerfið hér mun óhagkvæmara fyrir ný fjárfestingaverkefni heldur en þekkist í mörgum þeim löndum sem við gjarnan miðum okkur við - og erum í samkeppni við um fjárfestingar í atvinnusköpun.

Í því sambandi má nefna æskilega og einfalda breytingu á reglum um virðisaukaskatt. Hér á landi er sett það skilyrði að til að erlendur fjárfestir fái fjárfestingarsamning, skal hann stofna íslenskt félag utan um viðkomandi verkefni. En ef á endanum ekkert verður af verkefninu hefur þetta félag samt ekki tök á að endurheimta virðisaukaskatt sem það hefur greitt hér á landi (vegna aðkeyptrar þjónustu hér við undirbúning verkefnisins). Þetta fyrirkomulag er til þess fallið að gera undirbúning eða forathugun nýrra verkefna fjárhagslega áhættusamari en ella væri. Þetta fyrirkomulag er þröskuldur gagnvart fjárfestingu í nýjum atvinnurekstri og þar með hindrun fyrir bættri arðsemi í raforkuframleiðslunni hér. Skynsamlegt væri að breyta endurgreiðslureglunum til að skapa þarna meiri sveigjanleika.

Afturkippur í Norðurslóðaævintýrið?

Vert er að hafa í huga að það er aldeilis ekki sjálfgefið að ná að ljúka hér samningum um nýjar iðnaðarframkvæmdir af því tagi sem hér hefur verið fjallað um. Almennt séð ríkir ennþá óvenjumikil óvissa um þróun efnahagslífsins á Vesturlöndum næstu misseri og ár. Þetta endurspeglast t.d. í þeim afturkippi sem orðið hefur í olíuleit á norðurslóðum.

Þar má nefna að stórlega hefur dregið úr olíuleit við Grænland - a.m.k. tímabundið. Sama á við um olíuleitina norður af ströndum Alaska, þar sem Shell hefur hætt við umfangsmiklar framkvæmdir sem þar voru komnar á fullt. Meira að segja Statoil hefur verið að lenda í veseni norður í Barentshafi. Og það er líka athyglisvert að sérleyfishafarnir á Drekasvæðinu hófust ekki handa við rannsóknir í sumar - og það virðist allsendis óvíst hvort nokkuð gerist þar næsta sumar. Það hlýtur því að vera fagnaðarefni að við séum að verða vör við áþreifanlegan áhuga á nýrri iðnaðaruppbyggingu. Það er áfangasigur í nokkuð óhagstæðu efnahagsumhverfi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband