10.10.2012 | 23:33
Dauflegt útboð í skugga Noregs
Senn líður að því að Orkustofnun taki afstöðu til þeirra þriggja umsókna sem bárust stofnuninni um einkaleyfi til kolvetnisleitar og -vinnslu á Drekasvæðinu. Einungis tvö olíufélög sóttu þarna um. Í báðum tilvikum er um að ræða fremur lítil bresk félög. Þriðja umsóknin barst frá óskráðu íslensku félagi, sem ekki hefur reynslu af olíuleit.
Það er athyglisvert að bera þetta útboð saman við nýleg kolvetnisleitarútboð á landgrunni annarra ríkja í nágrenni Íslands. Svo virðist sem ný leitarsvæði við austurströnd Kanada, Grænland og í Miðjarðarhafi þyki mun álitlegri en að leita olíu á Drekasvæðinu. Þar er í öllum tilvikum um að ræða miklu fleiri og/eða sterkari umsækjendur um einkaleyfi en var á Drekasvæðinu.
Mestur áhugi virðist þó vera á olíuleit í lögsögu Noregs. Sá mikli áhugi er m.a. til kominn vegna hvetjandi fyrirkomulags sem norsk stjórnvöld tóku upp fyrir nokkrum árum gagnvart fyrirtækjum sem öðlast leyfi til rannsókna- og vinnslu á norska landgrunninu. Það útspil lýtur að endurgreiðslu kostnaðar vegna árangurslausrar olíuleitar og er umfjöllunarefni þessa pistils:
Norska endurgreiðslureglan
Umrætt fyrirkomulag felur það í sér að fyrirtæki sem leggur í olíuleit í norsku lögsögunni á rétt á því að fá allt að 78% kostnaðarins við leitina endurgreiddan - ef leitin reynist árangurslaus. Fyrir vikið er fjárhagsleg áhætta olíufyrirtækja af þurrum brunnum í norsku lögsögunni miklu minni en ella væri.Með þessu nýja fyrirkomulagi, sem samþykkt var fyrir tæpum áratug, tókst Norðmönnum að auka verulega áhuga olíuiðnaðarins á að fjárfesta í olíuleit á norska landgrunninu. Það á ekki aðeins við um ný leitarsvæði norður í Barentshafi, heldur jókst einnig áhugi á að leita olíu á eldri kolvetnissvæðum sunnar í norsku lögsögunni; á svæðum sem margir töldu nánast þurrausin.
Sumum kann að þykja að Norðmenn hafi þarna tekið verulega áhættu. Það gæti jú orðið ansið dýrt að þurfa að greiða fyrirtækjum svo stóran hluta af árangurslausri olíuleit. Norsk stjórnvöld töldu aftur á móti að ávinningurinn yrði enn meiri en sem nemur mögulegum útgjöldum ríkisins. Svo hagstætt starfsumhverfi myndi bæði auka eftirspurn stærstu og rótgrónustu olíufyrirtækjanna eftir að komast í norsku lögsöguna og vekja áhuga annarra minni en tæknilega öflugra fyrirtækja.
Fyrirkomulagið myndi því stuðla að mun meiri fjárfestingu í olíuleitinni og laða að ýmis fyrirtæki með mikla og góða þekkingu en mögulega takmarkað eigið fé. Slíkt myndi auka líkurnar á að finna nýjar olíu- og gaslindir í norsku lögsögunni. Og þetta nýja fyrirkomulag myndi á endanum bæði skapa Noregi nýjar skatttekjur í framtíðinni og auka eftirspurnina í norsku efnahagslífi almennt. Þarna má því kannski segja að Norðmenn hafi veðjað á að stuðningur við nýsköpun, hugmyndaauðgi og þekkingu skipti meiru en bara hreinræktuð áhættulítil skattalagningarstefna.
Mikil ásókn í norska landgrunnið
Nýja endurgreiðslureglan varð til þess að gera norska landgrunnið ennþá samkeppnishæfara en verið hafði. Enda fór svo að á innan við áratug fjölgaði starfandi olíufyrirtækjum á norska landgrunninu úr um þrjátíu og í meira en sjötíu fyrirtæki. Og það er til marks um beinharðan árangur af aukinni leit á gömlum olíusvæðum að nýlega fannst einhver stærsta olíulind í sögu Noregs í sjálfum Norðursjónum. Annað dæmi um góðan árangur af nýju reglunni er að aldrei hafa jafnmörg fyrirtæki lýst áhuga á olíuleit í norsku lögsögunni eins og var í síðasta forútboði norskra stjórnvalda fyrr á þessu ári (2012), en þar var um að ræða svæði á Barentshafi.
Þessi mikli áhugi er bæði athyglisverður og eðlilegur. Endurgreiðslureglan dregur augljóslega stórlega úr áhættu olíuleitarfyrirtækjanna og gerir þeim kleift að fjárfesta margfalt meira í kolvetnisleitinni en ella væri. Reglan veldur því að í reynd er einungis um fimmtungur fjárfestingarinnar áhættufjárfesting; afgangurinn nýtur réttar til ríkistryggðar endurgreiðslu. Þetta gerir olíufélögunum auðveldara að fjármagna framkvæmdir sínar innan norsku lögsögunnar og dregur úr eiginfjárþörf félaga til að öðlast rannsókna- og vinnsluleyfi. Fyrir vikið er geysilegur áhugi á að komast í norsku lögsöguna - og það þó svo svo skattlagning á olíuhagnað sé óvíða hærri en í Noregi (alls nálægt 80%).
Íslenska olíulöggjöfin er vart samkeppnishæf
Á svipuðum tíma og eftirspurnin eftir nýjum sérleyfum í norsku lögsögunni tók að aukast vegna norsku endurgreiðslureglunnar voru íslensk stjórnvöld að móta lagaramma vegna kolvetnisleitar við Ísland. Þar virðist viðmiðunin fyrst og fremst hafa verið sú að setja sem hæstan skatt á hagnað fyrirtækjanna. En að gleymst hafi að Drekasvæðið og íslenska landgrunnið allt er lítt þekkt og áhættusamt svæði sem er í mikilli samkeppni við fjölda annarra landgrunnssvæða.
Íslenski lagaramminn lagði í reynd alla áhættu af olíuleit á þessu óþekkta svæði á olíufyrirtækin. Það eitt og sér þarf alls ekki að vera óeðlilegt eða ósanngjarnt. En þetta gerir Drekasvæðið miklu áhættusamara en norska landgrunnið og samanburðurinn er Íslandi þarna mjög í óhag. Þetta hefur líka þá afleiðingu að félög sem ætla að hefja olíuleit og -vinnslu á Drekasvæðinu þurfa að vera miklu fjársterkari til að ráðast þar í rannsóknir og framkvæmdir heldur en myndi vera innan norsku lögsögunnar.
Það hefði því varla átt að koma neinum á óvart að fyrsta sérleyfisútboðið vegna Drekasvæðisins (2009) hlaut litla hrifningu hjá olíubransanum. Þar að auki var tímasetning þess einkennileg þarna í einhverri mestu efnahagslægð sem skollið hefur á Vesturlöndum. Því miður voru undirtektir olíubransans vegna annars útboðsins (2012) líka afar dauflegar. Og það þrátt fyrir að aldrei hafi olíuverð verið hærra á ársgrundvelli en árið 2011 og aldrei hefur olíuneysla heimsins verið meiri en það ár!
Þessi litli áhugi á Drekasvæðinu núna skýrist örugglega að verulegu leyti af því að fyrirtækin líti a.m.k. mörg hver á svæðið sem fjárhagslega afar áhættusamt og miklu skynsamlegra sé að einbeita sér fremur að t.d. norsku lögsögunni. Ekki síður skiptir hér máli sú staðreynd að miklu auðveldara er að fjármagna framkvæmdir innan norsku lögsögunnar. Íslenski lagaramminn er einfaldlega ekki samkeppnishæfur við Noreg.
Norðmenn skáka ekki bara Íslandi
Umrædd endurgreiðsluregla Norðmanna er reyndar svo hagstæð eða áhugaverð í augum olíufélaganna að það er farið að bitna á olíuleit í lögsögu annar þekktra olíuríkja. Það er t.a.m. staðreynd að meðan áhugi á olíuleit í norsku lögsögunni hefur aukist umtalsvert á síðustu árum, hefur dregið nokkuð úr eftirspurn eftir nýjum sérleyfum í bresku lögsögunni. Einnig hafa Írar borið sig illa yfir því hversu takmarkaður áhugi hefur verið á olíuleit í írsku lögsögunni og a.m.k. einhverjir málsmetandi Írar hafa þar kennt norsku endurgreiðslureglunni um. Það má því etv. segja að með nýju endurgreiðslureglunni hafi Norðmenn einfaldlega slegið flestum öðrum vestrænum olíuríkjum ref fyrir rass.
Flest greiningar- og ráðgjafarfyrirtæki á sviði olíubransans virðast sammála um það að þetta hafi verið snilldarleikur hjá Norðmönnum. Nýlega birti t.d. Wood Mackenzie skýrslu þar sem fram kemur að endurgreiðsluregla Norðmanna hafi leitt til þess að fundist hafi olía sem nú þegar hafi skilað um 4 milljörðum USD aukalega í verðmætasköpun á norska landgrunninu. Þetta séu verðmæti fengin af svæðum sem ella hefði ekki verið áhugi á að fjárfesta í. Þetta sé til marks um geysilega góðan árangur af stefnu Norðmanna.
Olíufélög á íslenska landgrunninu þurfa miklu meira eigið fé
Mikilvægt er að hafa í huga eina afleiðingu norsku endurgreiðslureglunnar. Sem er sú að það er engan veginn sjálfgefið að olíufélag sem fer með sérleyfi til rannsókna og vinnslu í norsku lögsögunni, ráði við sambærilega olíuleit í íslensku lögsögunni. Og það jafnvel þó svo kostnaðurinn við olíuleitina væri ámóta.
Þurr brunnur í norsku lögsögunni myndi skila viðkomandi félagi 78% kostnaðarins til baka. Engu slíku er til að dreifa skv. íslenskum lögum. Af þeirri ástæðu einni má segja að fjárhagsleg áhætta vegna olíuleitar innan norsku lögsögunnar sé almennt margfalt minni en innan þeirra íslensku. Og þess vegna verður miklu erfiðara fyrir félagið að fjármagna samsvarandi rannsóknir og framkvæmdir í íslensku lögsögunni, heldur en þeirri norsku.
Þetta kallar á miklu mun sterkari eiginfjárstöðu félaga sem hyggjast fá einkaleyfi á Drekasvæðinu. Þar að auki má búast við að hér verði olíuleitin almennt mun dýrari en í norsku lögsögunni - einfaldlega sökum þess hversu dýpið á Drekasvæðinu er mikið og lítið af frumgögnum fyrir hendi. Það þarf því bersýnilega almennt miklu sterkari eiginfjárstöðu til að ráða við olíuleit í íslensku lögsögunni samanborið við norsku lögsöguna.
Þess vegna hlýtur Orkustofnun að gera verulega strangari kröfur um eigið fé einkaleyfishafa heldur en gert er í norsku lögsögunni. Stofnunin þarf að varast að veita einkaleyfi til olíuleitar gegn mjög litlum skilyrðum um framkvæmdir. Það myndi minnka líkur á því að olíuleitin beri þann árangur sem ella væri. Það er einfaldlega afar mikilvægt að fyrirtæki sem fær einkaleyfi ráði við olíuleitina - bæði tæknilega og fjárhagslega - og að einkaleyfi verði ekki bara vettvangur spákaupmennsku.
Ábyrgðin er hjá Alþingi
Það furðulega er að þessi atriði sem snúa að norsku endurgreiðslureglunni og afleiðingum hennar virðast nánast hvergi hafa komið fram í umfjöllun um útboðin á Drekasvæðinu - nema þá í framhjáhlaupi eða að það sé nefnt nánast sem smáatriði. Ennþá furðulegra er að t.a.m. í athugasemdum Samtaka iðnaðarins við lagafrumvörp um olíuleitina og skattahlið kolvetnisvinnslunnar virðist hvergi hafa verið lögð áhersla á mikla þýðingu umræddrar endurgreiðslureglu Norðmanna. Né það hversu íslenska löggjöfin (frumvörpin) geri íslenska Drekasvæðið illa samkeppnishæft í samanburði við norsku lögsöguna. Þekking Samtaka iðnaðarins á lagaumhverfi olíuleitar virðist skv. þessu vera afar takmörkuð.
Svo virðist sem Alþingi hafi hreinlega ekki áttað sig á því að lagaumhverfið hér er þannig úr garði gert að það gerir Drekasvæðið sjálfkrafa mjög áhættusamt í samanburði við norsku lögsöguna (án tillits til jarðfræðilegra aðstæðna eða lítillar þekkingar á svæðinu). Þær ívilnandi skattareglur um frádrátt frá tekjum sem samþykktar voru í tengslum við setningu íslensku kolvetnislaganna duga skammt til að jafna stöðuna gagnvart norsku reglunum. Afleiðingin er augljóslega sú að draga stórlega úr áhuga olíufyrirtækja á Drekasvæðinu. Það er því kannski ekki að undra að Orkustofnun skuli hafa gengið illa að laða umsækjendur að Drekasvæðinu. Ábyrgðin á lagasetningunni er að sjálfsögðu hjá Alþingi, sem þarna hefði hugsanlega átt að sýna af sér meira raunsæi.
Vonandi tekst samt vel til
Þar með er þó alls ekki útilokað að jafnvel lítið félag geti náð góðum árangri á Drekasvæðinu. Jarðfræðilegar aðstæður virðast nokkuð spennandi og með heppni gæti hvað sem er gerst. En fyrirfram er fjárhagslega áhættan mjög mikil og afar miður að ekki hafi tekist að vekja áhuga sterkari fyrirtækja á svæðinu. Þar er lagaumhverfið í lykilhlutverki. Það má þó til allrar hamingju alltaf laga og bæta.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.