4.6.2014 | 14:26
Raforkuverð mun hækka
Hátt raforkuverð víða í Evrópu veldur því að það væri mjög áhugavert að geta selt íslenska raforku inn á evrópskan markað. En á sama tíma og raforkuverð víða í Evrópu hefur haldist hátt, hefur raforkuverð víða í Bandaríkjunum verið nokkuð lágt og sumstaðar hreint ótrúlega lágt. Þessi mismunur hefur orðið til þess að sumir freistast til að halda að raforkuverðið vestra eigi eftir að haldast lágt næstu árin. Þeir sem best þekkja til eru þó á öðru máli. Og telja langlíklegast að raforkuverð í Bandaríkjunum muni fara hækkandi. Og brátt verða jafnvel margfalt hærra en t.d. það verð sem við seljum mest af íslensku raforkunni á.
Lægsta raforkuverðið í Bandaríkjunum 2025 verður 65-76 USD/MWst
Undanfarin misseri og ár hefur heildsöluverð á raforku sumstaðar í Bandaríkjunum farið allt niður í 35-45 USD/MWst. Þetta lága verð kemur einkum til vegna offramboðs af jarðgasi og stenst ekki til lengdar (gasverðið hefur farið vel undir framleiðslukostnað). Í nýjustu spá upplýsingaskrifstofu bandaríska orkumálaráðuneytisins (EIA) er talið að raforkuverðið muni óhjákvæmilega hækka. Og að eftir um áratug (þ.e. árið 2025) verði lægsta raforkuverð sem býðst í Bandaríkjunum á bilinu 65-76 USD/MWst. Þarna er vel að merkja átt við lægsta verðið, þ.e. raforkuverð til stórnotenda í iðnaði. Þjónustufyrirtæki munu þurfa að greiða mun hærra verð fyrir raforkuna og heimili ennþá hærra verð.
Verðið á Íslandi einungis um þriðjungur verðsins í Bandaríkjunum
Hér á Íslandi fer nú um 75% allrar raforkunnar til álveranna þriggja, sem hér eru. Það hlýtur að vera athyglisvert fyrir Íslendinga að sá iðnaður hér er sennilega að greiða um 25 USD/MWst (verðið í einstökum samningum við álverin er ekki gefið upp, en umrætt verð má ráða af ársskýrslum orkufyrirtækjanna). Þarna er um að ræða langtímasamninga og þess vegna mun þetta verð upp á 25 USD/MWst verða hér nálægt hið sama árið 2025. Það getur þó lækkað eða hækkað eitthvað, allt eftir því hvernig verð á áli þróast (vegna þess að rúmlega helmingur raforkusölunnar til álveranna er tengdur við markaðsverð á áli á LME). En í grófum dráttum bendir flest til þess að eftir um áratug verði raforkuverð til iðnfyrirtækja í Bandaríkjunum allt að þrefalt hærra en til stóriðjunnar hér! Þetta hlýtur að vera umhugsunarvert.
Lágmarkskostnaður við að afla raforku er nálægt 65 USD/MWst
Það er vandasamt og nær ómögulegt að spá með mikilli nákvæmni fyrir um raforkuverð á ákveðnum tímapunkti á hinum kviku mörkuðum í Bandaríkjunum. Og raforkuverð á raforkumörkuðum bæði austan hafs og vestan mun ávallt sveiflast - og stundum taka dýfur og stundum stökkva upp á við. En umrædd þróun, þ.e. verðhækkun til lengri tíma litið, virðist óhjákvæmileg. Vegna þess að kostnaðurinn við að afla raforku mun ekki réttlæta lægra raforkuverð en umrædda 65 USD/MWst.
Lengst af hafa kolaorkuver nálægt helstu kolavinnslusvæðum Bandaríkjanna geta boðið lægsta raforkuverðið (auk stórra vatnsaflsfyrirtækja). En bandaríski orkugeirinn hefur breyst mikið á síðustu árum. Sú tegund raforkuvera sem nú eru hagkvæmust fyrir fjárfesta í Bandaríkjunum eru gasorkuver. Það kemur til af því að nýjar vinnsluaðferðir á gasi hafa opnað aðgang að miklum gaslindum og stóraukið framboð af gasi. Jarðgasið er orðið ennþá ódýrari orkugjafi en kolin og allt útlit fyrir að svo verði um langa framtíð.
Það er því gasorkan sem nú markar gólfið í kostnaði á raforku. EIA álítur að nýtt gasorkuver sem koma á í notkun innan fimm ára muni þurfa lágmarksverð fyrir raforkuna sem nemur um 65 USD/MWst. Og að það lágmarksverð komi fremur til með að hækka en lækka þegar lengra sé litið fram í tímann. Þess vegna sé óhjákvæmilegt að raforkuverð muni senn að lágmarki almennt verða um 65 USD/MWst (að auki skal þess getið að EIA tekur sérstaklega fram að aðrir aðilar spái ennþá hærra lágmarksverði og nefna þar spár um að lágmarksverðið kunni að verða nær 76 USD/MWst).
Einhver kann að halda því fram að raforkunotkun í Bandaríkjunum sé orðin það stöðug að ekki muni þurfa ný orkuver og þess vegna muni raforkuverð þar haldast lágt. Slík skoðun stenst ekki. Jafnvel þó svo raforkunotkun myndi ekkert aukast i Bandaríkjunum frá því sem verið hefur undanfarin ár, verður samt nauðsynlegt að reisa umrædd ný gasorkuver (og fjölda annarra orkuvera, sem munu kalla á ennþá hærra raforkuverð). Langmest af raforkuframleiðslunni í Bandaríkjunum er frá kola- og gasorkuverum og þau þurfa umtalsvert viðhald. Hagkvæmni og margvíslegar reglur um mengunarvarnir valda því að sífellt er verið að loka eldri orkuverum - og þá er og verður í mörgum (flestum) tilvikum hagkvæmast að reisa ný gasorkuver. Og umrætt verð upp á 65 USD/MWst er það verð sem þarf til að orkuverið sé byggt og komið sé í veg fyrir raforkuskort. Sem sagt algert lágmarksverð.
Hugsanlega verður verðið mun hærra
Ný gasorkuver verða ekki hin einu á bandaríska orkumarkaðnum. Sumstaðar verður valinn dýrari kostur en gasorkuver. Hver þróunin nákvæmlega verður mun m.a. ráðast af raforkuverði og þeim hvötum sem í boði verða til að auka fjölbreytni i orkugeiranum og auka hlutfall endurnýjanlegrar orku. Af síðustu fréttum má ráða að þar verði brátt tekin ennþá stærri skref í átt að ströngum mengunarvörnum en gert var ráð fyrir í umræddri nýjustu spá EIA. Það er sem sagt svo að stefna bandarískra stjórnvalda mun sennilegast verða til þess að hækka raforkuverð ennþá meira en leiðir af þeim forsendum sem EIA hefur gefið sér!
Stærsta tækifæri Íslands
Hér á þessum vettvangi hefur ítrekað verið fjallað um það hvernig þróun orkumála í Evrópu gæti reynst Íslandi hagkvæm - ef við grípum tækifærin sem sú þróun veitir okkur. Og það eru líka góðar líkur á að þróunin á orkumörkuðum í Bandaríkjunum og orkustefna bandarískra stjórnvalda verði vatn á okkar myllu.
Enn og aftur er tilefni til að minna lesendur á það, að við erum ekki aðeins langstærsti raforkuframleiðandi heims (per capita, þ.e. miðað við fólksfjölda) heldur er öll sú framleiðsla okkar komin frá hagkvæmum endurnýjanlegum auðlindum. Í þessu felast geysileg tækifæri. Stóra spurningin er hvort við munum áfram selja megnið af þessari geysilega áreiðanlegu og endurnýjanlegu orku til þess iðnaðar sem greiðir lægsta orkuverð í heimi? Eða ná að skapa miklu meiri verðmæti úr auðlindinni?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.