24.11.2012 | 09:24
McKinsey talar fyrir sæstreng
Enn og aftur hefur athygli verið vakin á því hversu arðsemi í íslenska orkugeiranum er lítil.
Ekki er langt síðan út kom skýrsla unnin af Sjónarrönd, þar sem þessi litla arðsemi var útlistuð. Og nú síðast kom þetta fram í nýrri skýrslu bandaríska ráðgjafafyrirtækisins McKinsey.
Skýrsla McKinsey ber yfirskriftina Charting a Growth Path for Iceland. Þar er fjallað um efnahagslega stöðu Íslands og hvaða framtíðaráherslur McKinsey telur skynsamlegar í íslensku efnahagslífi.
Í skýrslunni er talsvert fjallað um íslenska orkugeirann. McKinsey vekur m.a. athygli á því hversu stór hluti allrar fjárfestingar á Íslandi liggi í orkugeiranum og atvinnugreinum sem honum tengjast. Þar á meðal er að sjálfsögðu öll raforkuframleiðslan. Samkvæmt skýrslunni er arðsemin í þeim rekstri hér mjög lítil. McKinsey álítur engu að síður að ýmis tækifæri séu fyrir hendi til að það breytist til batnaðar. Og leggur áherslu á að áríðandi sé að ráðast í aðgerðir í því skyni.
Tækifæri til að stórauka arðsemi raforkufyrirtækjanna
McKinsey segir að helstu ástæður lítillar arðsemi í raforkuframleiðslunni hér séu einkum af tvennum toga. Í fyrsta lagi sé kaupendahópurinn afar einsleitur, en um 70% raforkunnar fer til álvera og samtals fara um 80% til stóriðju. Í öðru lagi valdi einangrun íslenska raforkumarkaðarins því að lítil samkeppni myndast um raforkuna.
McKinsey álítur að mikilvæg forsenda þess að auka arðsemi raforkuframleiðslufyrirtækjanna sé að byggja upp mun fjölbreyttari kaupendahóp. Það merkir í reynd að draga þurfi úr vægi áliðnaðar sem hlutfall af allri raforkunotkun í landinu.
McKinsey vekur athygli á því að mjög hátt hlutfall álveranna og stóriðjunnar á raforkumarkaðnum valdi því að hér hafi verið byggð upp talsverð umframafkastageta í virkjununum. Tilgangurinn er auðvitað sá að auka afhendingaröryggi og tryggja að stóriðjan fái ávallt það rafmagn sem hún þarf. Vegna umframafkastagetunnar er raforkuframleiðslan hér ekki alveg eins hagkvæm og ella væri. Að sögn McKinsey er reyndin sú að um 15% orkunnar fari til spillis með því að vatn úr miðlunarlónum rennur um yfirfall.
Þetta síðastnefnda er eitt af þeim atriðum sem McKinsey telur að geri sæstreng til Evrópu sérlega áhugaverðan kost fyrir íslensku orkufyrirtækin. Þá væri unnt að ná fram meiri nýtingu af fjárfestingu orkufyrirtækjanna hér (einkum og sér í lagi þeirra sem reka vatnsaflsvirkjanir). Þar að auki myndi slíkur strengur opna aðgang að raforkumarkaði þar sem verðið er almennt miklu mun hærra en tíðkast hefur hér á landi.
Meðmæli McKinsey með sæstreng byggja m.a. á þeim rökum að þar með yrði unnt að selja raforku héðan til Evrópu á um 55 EUR umfram framleiðslukostnað á hverja MWst. Þá er miðað við að kostnaðarverð við framleiðslu raforku á Íslandi og flutning til Evrópu sé um 60 EUR/MWst og að kostnaðarverð nýs vindorkuvers í Bretlandi sé um 115 EUR/MWst. Dæmið lítur sem sagt þannig út: 115-60 = 55. Og það eru þessar 55 evrur sem yrðu hreinn hagnaður af hverri seldri MWst í þessu dæmi.
Verulegur hluti umrædds hagnaðar myndi renna til íslensku raforkuframleiðanna (þar yrði Landsvirkjun eðlilega umsvifamest). Í skýrslunni er ekki nákvæmlega tiltekið hversu stór sá hluti kæmi til með að vera, enda er það háð ýmissi óvissu. Það er auðvitað heldur ekki unnt að fullyrða hvert raforkuverð í Evrópu verður til framtíðar og því eru forsendurnar óvissar. En hér má hugsanlega miða við að af umræddum hagnaði rynni rétt rúmlega helmingurinn til raforkuframleiðandans. Það væri þá mögulega nálægt 30 EUR/MWst - sem væri hreinn hagnaður af hverri seldri MWst frá Íslandi um strenginn. Afgangur hagnaðarins myndi svo renna til eiganda sæstrengsins og samstarfsaðila erlendis.
Þetta myndi þýða að íslensku raforkufyrirtækin fengju um 60 EUR/MWst fyrir það rafmagn sem selt yrði um strenginn. Það er sennilega rúmlega helmingi hærra verð en þau fá í dag frá stóriðjunni. Ef forsendur McKinsey standast myndi rafstrengur því skapa íslensku raforkufyrirtækjunu mikinn hagnað og arðsemi þeirra fara úr því að vera afar lítil og yfir í það að verða mjög góð.
Er íslensk raforka auðlind sem gæti jafnast á við norsku olíuna?
McKinsey bendir á að umræddur hagnaður af raforkusölu gæti orðið grundvöllur verulegra arðgreiðslna frá orkufyrirtækjunum til eigenda sinna (sem er ríkið í tilviki Landsvirkjunar og Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög í tilviki Orkuveitu Reykjavíkur). Jafnframt myndi hagnaðurinn verða grundvöllur nýrra skatttekna fyrir íslenska ríkið í formi tekjuskatts vegna aukins hagnaðar raforkufyrirtækjanna.
McKinsey færir rök fyrir því að þessi aukna arðsemi gæti innan nokkurra ára orðið grundvöllur auðlindarentu sem myndi hlutfallslega samsvara greiðslum úr norska Olíusjóðnum til norska ríkisins. Samanburðurinn við Olíusjóðinn norska er væntanlega fyrst og fremst gerður til að setja þessa arðsemismöguleika í eitthvert raunverulegt samhengi sem fólk kannast við. Þetta eru svo sem ekki nýjar fréttir. Landsvirkjun hefur áður kynnt svipaðar sviðsmyndir og þá m.a. stuðst við tölur frá Pöyry og skýrslu sem GAMMA vann fyrir Landsvirkjun.
Allt er þetta auðvitað háð ýmissi óvissu. Það er t.d. ekki unnt að áætla af nákvæmni hvernig raforkuverð kemur til með að þróast í Evrópu á næstu árum eða áratugum (forsendur þar um geta ýmist verið of bjartsýnar eða of svartsýnar). Það er líka talsverð óvissa um hvað sæstengur milli Íslands og Evrópu myndi kosta (þar hafa sést tölur á bilinu 1,5-3 milljarðar EUR). Öll þessi atriði skipta að sjálfsögðu máli þegar meta skal mögulega arðsemi af raforkusölu til Evrópu. En eftir stendur að flestir virðast sammála um að raforkuverð í Evrópu muni hækka umtalsvert næstu ár og áratugi og því sé áhugavert að skoða sæstrengsmöguleikann af mikilli gaumgæfni og alvöru.
Útflutningur á rafmagni er umdeilt pólítískt mál
Inn í þetta blandast ýmis önnur atriði. Þar er kannski helst að nefna það álitaefni hvort íslenska raforku skuli yfir höfuð flytja út eða einungis nýta til innlendrar starfsemi. Sumir vilja ekki að orkan sé flutt út, heldur beri að nýta hana alla til handa framleiðslugreinum og öðru atvinnulífi hér á landi. Ef það sérkennilega sjónarmið verður ofan á, mun það a.m.k. ekki aldeilis flýta fyrir því að arðsemi íslensku raforkufyrirtækjanna aukist svo máli skipti.
Enn eitt álitaefnið er svo það hvort almenningur á Íslandi kærir sig yfir höfuð um aukna arðsemi raforkufyrirtækjanna. Kannski er fólk almennt sátt við núverandi skipan mála í ljósi þess að hún hefur leitt til þess að raforkuverð til almennings hér er umtalsvert lægra en í nágrannalöndum okkar. Það er líklegt að rafstrengur milli Íslands og Evrópu myndi valda einhverri og jafnvel umtalsverðri hækkun á raforkuverði til almennings og íslenskra fyrirtækja almennt. Um það hversu hækkunin yrði mikið er erfitt að fullyrða, en skv. erindi Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, á nýafstöðnum haustfundi fyrirtækisins gæti þessi hækkun orðið innan hóflegra marka.
Það að ráðast í lagningu sæstrengs gæti sem sagt mætt ýmsum andmælum og hindrunum og þá líklega einkum af pólitískum toga. Niðurstaðan hlýtur þó á endanum að verða byggð á viðskiptalegum forsendum fyrst og fremst. Þar sem að sjálfsögðu yrði tekið eðlilegt tillit til ýmissra almennra sjónarmiða, svo sem stefnumótunar Alþingis um virkjanir (þ.e. Rammaáætlunin) og að sjálfsögðu umhverfissjónarmiða.
Skýrsla McKinsey bætir litlu við það sem þegar var vitað m.t.t. orkumála
Umrædd skýrsla McKinsey er að sögn fyrirtækisins algerlega hlutlaus og eingöngu byggð á staðreyndum og túlkun starfsfólks McKinsey's á þeim staðreyndum. Fyrir þann sem hefur áhuga á orkumálum var vissulega áhugavert að lesa skýrsluna. Þar kemur þó fátt nýtt fram. Flest ef ekki allt það sem í skýrslunni segir um íslenska orkugeirann og möguleika hans til framtíðar er þekkt úr ýmsum öðrum gögnum og skýrslum sem birst hafa síðustu misseri og ár.
En þrátt fyrir að McKinsey sé ekki að koma fram með nýjar upplýsingar um íslenska orkugeirann, stendur það eftir að með henni hefur þekkt alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki bent á eftirfarandi: Ef rétt verður haldið á málum hérna kann að vera mögulegt að auka verulega arðsemi af raforkuframleiðslu á Íslandi. Í því skyni álítur McKinsey að leggja beri sérstaka áherslu á aukna fjölbreytnina í hópi raforkukaupenda og skynsamlegt sé að kanna möguleikann á sæstreng af fullri alvöru.
Nýtt álver er sagður vera slæmur kostur
Nefna má að í skýrslu sinni tekur McKinsey það sérstaklega fram að ný álver séu einhver allra lakasti kosturinn til að ná fram aukinni arðsemi í raforkusölunni. Í þessu sambandi er athyglisvert að ennþá virðast margir ef ekki flestir íslensku stjórnmálaflokkanna áhugasamir um að næsta stóra orkuverkefni á Íslandi verði virkjanir fyrir nýtt álver í Helguvík. En ef tekið er mark á orðum McKinsey ætti slík uppbygging a.m.k. ekki að vera forgangsatriði. Í því ljósi mætti ætla að stjórnir íslensku orkufyrirtækjanna séu ekki sérstaklega áhugasamar um að byggja fleiri virkjanir hér sem fyrst og fremst selji raforku til nýs álvers.
Allt þetta mál hefur þó auðvitað margar hliðar. Menn getur t.d. greint á um þjóðhagsleg heildaráhrif stóriðjunnar og t.d. líka greint á um hvort aðferðarfræði McKinsey hefði átt að vera eitthvað öðruvísi. Í kjölfar útkomu skýrslunnar birtu Samtök álfyrirtækja (Samál) athugasemdir þar sem aðferðarfræði McKinsey er beinlínis sögð vera villandi. Þær athugasemdir Samáls voru þó heldur efnisrýrar. Og það er varla til að styrkja málstað Samáls að eina heimildin sem samtökin vísa til er ein lítil blaðagrein í íslensku dagblaði.
Þegar um er að ræða jafn stórt og viðamikið mál eins og orkuframleiðslu til stóriðju hefði maður vænst þess að sjá mun efnismeiri og betur rökstuddar athugasemdir frá Samáli. Samáli hefði líka verið í lófa lagið að benda á að það veikir nokkuð skýrslu McKinsey að hún virðist vanmeta kostnað við að reisa nýjar virkjanir á Íslandi. Einnig virðast skýrsluhöfundar líta framhjá helstu áhættuþáttunum við það að leggja umræddan rafstreng, en bilanatíðni svona strengja er ennþá óþægilega há.
Það er vissulega eðlilegt að við hlustum á öll sjónarmið og reynum að fá sem skýrasta mynd af efnahagslegum áhrifum stóriðjunnar á Íslandi og ekki síður átta okkur á því hvaða tækifæri kunna að vera fyrir hendi til að raforkuframleiðslan hér verði arðbærari en verið hefur. Skýrsla McKinsey er eitt innlegg í þá umræðu. Og sú vinna sem nú er í gangi af hálfu íslenskra stjórnvalda um að skoða möguleikann á rafstreng til Evrópu mun sjálfsagt innan tíðar varpa ennþá skýrara ljósi á hversu raunhæfur þessi möguleiki er.
Mikilvægt er að hagsmunaaðilar allir og fulltrúar almennings kynni sér málið vel og í víðu samhengi og taki það til markvissrar umfjöllunar. Af fréttum að dæma virðist einhver slík umræða vera að hefjast á hinum pólítíska vettvangi. Að svo stöddu er þó skynsamlegt að doka við uns starfshópur sem fjallar um sæstrengsmögueikann hefur skilað áliti sínu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.10.2012 | 23:33
Dauflegt útboð í skugga Noregs
Senn líður að því að Orkustofnun taki afstöðu til þeirra þriggja umsókna sem bárust stofnuninni um einkaleyfi til kolvetnisleitar og -vinnslu á Drekasvæðinu. Einungis tvö olíufélög sóttu þarna um. Í báðum tilvikum er um að ræða fremur lítil bresk félög. Þriðja umsóknin barst frá óskráðu íslensku félagi, sem ekki hefur reynslu af olíuleit.
Það er athyglisvert að bera þetta útboð saman við nýleg kolvetnisleitarútboð á landgrunni annarra ríkja í nágrenni Íslands. Svo virðist sem ný leitarsvæði við austurströnd Kanada, Grænland og í Miðjarðarhafi þyki mun álitlegri en að leita olíu á Drekasvæðinu. Þar er í öllum tilvikum um að ræða miklu fleiri og/eða sterkari umsækjendur um einkaleyfi en var á Drekasvæðinu.
Mestur áhugi virðist þó vera á olíuleit í lögsögu Noregs. Sá mikli áhugi er m.a. til kominn vegna hvetjandi fyrirkomulags sem norsk stjórnvöld tóku upp fyrir nokkrum árum gagnvart fyrirtækjum sem öðlast leyfi til rannsókna- og vinnslu á norska landgrunninu. Það útspil lýtur að endurgreiðslu kostnaðar vegna árangurslausrar olíuleitar og er umfjöllunarefni þessa pistils:
Norska endurgreiðslureglan
Umrætt fyrirkomulag felur það í sér að fyrirtæki sem leggur í olíuleit í norsku lögsögunni á rétt á því að fá allt að 78% kostnaðarins við leitina endurgreiddan - ef leitin reynist árangurslaus. Fyrir vikið er fjárhagsleg áhætta olíufyrirtækja af þurrum brunnum í norsku lögsögunni miklu minni en ella væri.Með þessu nýja fyrirkomulagi, sem samþykkt var fyrir tæpum áratug, tókst Norðmönnum að auka verulega áhuga olíuiðnaðarins á að fjárfesta í olíuleit á norska landgrunninu. Það á ekki aðeins við um ný leitarsvæði norður í Barentshafi, heldur jókst einnig áhugi á að leita olíu á eldri kolvetnissvæðum sunnar í norsku lögsögunni; á svæðum sem margir töldu nánast þurrausin.
Sumum kann að þykja að Norðmenn hafi þarna tekið verulega áhættu. Það gæti jú orðið ansið dýrt að þurfa að greiða fyrirtækjum svo stóran hluta af árangurslausri olíuleit. Norsk stjórnvöld töldu aftur á móti að ávinningurinn yrði enn meiri en sem nemur mögulegum útgjöldum ríkisins. Svo hagstætt starfsumhverfi myndi bæði auka eftirspurn stærstu og rótgrónustu olíufyrirtækjanna eftir að komast í norsku lögsöguna og vekja áhuga annarra minni en tæknilega öflugra fyrirtækja.
Fyrirkomulagið myndi því stuðla að mun meiri fjárfestingu í olíuleitinni og laða að ýmis fyrirtæki með mikla og góða þekkingu en mögulega takmarkað eigið fé. Slíkt myndi auka líkurnar á að finna nýjar olíu- og gaslindir í norsku lögsögunni. Og þetta nýja fyrirkomulag myndi á endanum bæði skapa Noregi nýjar skatttekjur í framtíðinni og auka eftirspurnina í norsku efnahagslífi almennt. Þarna má því kannski segja að Norðmenn hafi veðjað á að stuðningur við nýsköpun, hugmyndaauðgi og þekkingu skipti meiru en bara hreinræktuð áhættulítil skattalagningarstefna.
Mikil ásókn í norska landgrunnið
Nýja endurgreiðslureglan varð til þess að gera norska landgrunnið ennþá samkeppnishæfara en verið hafði. Enda fór svo að á innan við áratug fjölgaði starfandi olíufyrirtækjum á norska landgrunninu úr um þrjátíu og í meira en sjötíu fyrirtæki. Og það er til marks um beinharðan árangur af aukinni leit á gömlum olíusvæðum að nýlega fannst einhver stærsta olíulind í sögu Noregs í sjálfum Norðursjónum. Annað dæmi um góðan árangur af nýju reglunni er að aldrei hafa jafnmörg fyrirtæki lýst áhuga á olíuleit í norsku lögsögunni eins og var í síðasta forútboði norskra stjórnvalda fyrr á þessu ári (2012), en þar var um að ræða svæði á Barentshafi.
Þessi mikli áhugi er bæði athyglisverður og eðlilegur. Endurgreiðslureglan dregur augljóslega stórlega úr áhættu olíuleitarfyrirtækjanna og gerir þeim kleift að fjárfesta margfalt meira í kolvetnisleitinni en ella væri. Reglan veldur því að í reynd er einungis um fimmtungur fjárfestingarinnar áhættufjárfesting; afgangurinn nýtur réttar til ríkistryggðar endurgreiðslu. Þetta gerir olíufélögunum auðveldara að fjármagna framkvæmdir sínar innan norsku lögsögunnar og dregur úr eiginfjárþörf félaga til að öðlast rannsókna- og vinnsluleyfi. Fyrir vikið er geysilegur áhugi á að komast í norsku lögsöguna - og það þó svo svo skattlagning á olíuhagnað sé óvíða hærri en í Noregi (alls nálægt 80%).
Íslenska olíulöggjöfin er vart samkeppnishæf
Á svipuðum tíma og eftirspurnin eftir nýjum sérleyfum í norsku lögsögunni tók að aukast vegna norsku endurgreiðslureglunnar voru íslensk stjórnvöld að móta lagaramma vegna kolvetnisleitar við Ísland. Þar virðist viðmiðunin fyrst og fremst hafa verið sú að setja sem hæstan skatt á hagnað fyrirtækjanna. En að gleymst hafi að Drekasvæðið og íslenska landgrunnið allt er lítt þekkt og áhættusamt svæði sem er í mikilli samkeppni við fjölda annarra landgrunnssvæða.
Íslenski lagaramminn lagði í reynd alla áhættu af olíuleit á þessu óþekkta svæði á olíufyrirtækin. Það eitt og sér þarf alls ekki að vera óeðlilegt eða ósanngjarnt. En þetta gerir Drekasvæðið miklu áhættusamara en norska landgrunnið og samanburðurinn er Íslandi þarna mjög í óhag. Þetta hefur líka þá afleiðingu að félög sem ætla að hefja olíuleit og -vinnslu á Drekasvæðinu þurfa að vera miklu fjársterkari til að ráðast þar í rannsóknir og framkvæmdir heldur en myndi vera innan norsku lögsögunnar.
Það hefði því varla átt að koma neinum á óvart að fyrsta sérleyfisútboðið vegna Drekasvæðisins (2009) hlaut litla hrifningu hjá olíubransanum. Þar að auki var tímasetning þess einkennileg þarna í einhverri mestu efnahagslægð sem skollið hefur á Vesturlöndum. Því miður voru undirtektir olíubransans vegna annars útboðsins (2012) líka afar dauflegar. Og það þrátt fyrir að aldrei hafi olíuverð verið hærra á ársgrundvelli en árið 2011 og aldrei hefur olíuneysla heimsins verið meiri en það ár!
Þessi litli áhugi á Drekasvæðinu núna skýrist örugglega að verulegu leyti af því að fyrirtækin líti a.m.k. mörg hver á svæðið sem fjárhagslega afar áhættusamt og miklu skynsamlegra sé að einbeita sér fremur að t.d. norsku lögsögunni. Ekki síður skiptir hér máli sú staðreynd að miklu auðveldara er að fjármagna framkvæmdir innan norsku lögsögunnar. Íslenski lagaramminn er einfaldlega ekki samkeppnishæfur við Noreg.
Norðmenn skáka ekki bara Íslandi
Umrædd endurgreiðsluregla Norðmanna er reyndar svo hagstæð eða áhugaverð í augum olíufélaganna að það er farið að bitna á olíuleit í lögsögu annar þekktra olíuríkja. Það er t.a.m. staðreynd að meðan áhugi á olíuleit í norsku lögsögunni hefur aukist umtalsvert á síðustu árum, hefur dregið nokkuð úr eftirspurn eftir nýjum sérleyfum í bresku lögsögunni. Einnig hafa Írar borið sig illa yfir því hversu takmarkaður áhugi hefur verið á olíuleit í írsku lögsögunni og a.m.k. einhverjir málsmetandi Írar hafa þar kennt norsku endurgreiðslureglunni um. Það má því etv. segja að með nýju endurgreiðslureglunni hafi Norðmenn einfaldlega slegið flestum öðrum vestrænum olíuríkjum ref fyrir rass.
Flest greiningar- og ráðgjafarfyrirtæki á sviði olíubransans virðast sammála um það að þetta hafi verið snilldarleikur hjá Norðmönnum. Nýlega birti t.d. Wood Mackenzie skýrslu þar sem fram kemur að endurgreiðsluregla Norðmanna hafi leitt til þess að fundist hafi olía sem nú þegar hafi skilað um 4 milljörðum USD aukalega í verðmætasköpun á norska landgrunninu. Þetta séu verðmæti fengin af svæðum sem ella hefði ekki verið áhugi á að fjárfesta í. Þetta sé til marks um geysilega góðan árangur af stefnu Norðmanna.
Olíufélög á íslenska landgrunninu þurfa miklu meira eigið fé
Mikilvægt er að hafa í huga eina afleiðingu norsku endurgreiðslureglunnar. Sem er sú að það er engan veginn sjálfgefið að olíufélag sem fer með sérleyfi til rannsókna og vinnslu í norsku lögsögunni, ráði við sambærilega olíuleit í íslensku lögsögunni. Og það jafnvel þó svo kostnaðurinn við olíuleitina væri ámóta.
Þurr brunnur í norsku lögsögunni myndi skila viðkomandi félagi 78% kostnaðarins til baka. Engu slíku er til að dreifa skv. íslenskum lögum. Af þeirri ástæðu einni má segja að fjárhagsleg áhætta vegna olíuleitar innan norsku lögsögunnar sé almennt margfalt minni en innan þeirra íslensku. Og þess vegna verður miklu erfiðara fyrir félagið að fjármagna samsvarandi rannsóknir og framkvæmdir í íslensku lögsögunni, heldur en þeirri norsku.
Þetta kallar á miklu mun sterkari eiginfjárstöðu félaga sem hyggjast fá einkaleyfi á Drekasvæðinu. Þar að auki má búast við að hér verði olíuleitin almennt mun dýrari en í norsku lögsögunni - einfaldlega sökum þess hversu dýpið á Drekasvæðinu er mikið og lítið af frumgögnum fyrir hendi. Það þarf því bersýnilega almennt miklu sterkari eiginfjárstöðu til að ráða við olíuleit í íslensku lögsögunni samanborið við norsku lögsöguna.
Þess vegna hlýtur Orkustofnun að gera verulega strangari kröfur um eigið fé einkaleyfishafa heldur en gert er í norsku lögsögunni. Stofnunin þarf að varast að veita einkaleyfi til olíuleitar gegn mjög litlum skilyrðum um framkvæmdir. Það myndi minnka líkur á því að olíuleitin beri þann árangur sem ella væri. Það er einfaldlega afar mikilvægt að fyrirtæki sem fær einkaleyfi ráði við olíuleitina - bæði tæknilega og fjárhagslega - og að einkaleyfi verði ekki bara vettvangur spákaupmennsku.
Ábyrgðin er hjá Alþingi
Það furðulega er að þessi atriði sem snúa að norsku endurgreiðslureglunni og afleiðingum hennar virðast nánast hvergi hafa komið fram í umfjöllun um útboðin á Drekasvæðinu - nema þá í framhjáhlaupi eða að það sé nefnt nánast sem smáatriði. Ennþá furðulegra er að t.a.m. í athugasemdum Samtaka iðnaðarins við lagafrumvörp um olíuleitina og skattahlið kolvetnisvinnslunnar virðist hvergi hafa verið lögð áhersla á mikla þýðingu umræddrar endurgreiðslureglu Norðmanna. Né það hversu íslenska löggjöfin (frumvörpin) geri íslenska Drekasvæðið illa samkeppnishæft í samanburði við norsku lögsöguna. Þekking Samtaka iðnaðarins á lagaumhverfi olíuleitar virðist skv. þessu vera afar takmörkuð.
Svo virðist sem Alþingi hafi hreinlega ekki áttað sig á því að lagaumhverfið hér er þannig úr garði gert að það gerir Drekasvæðið sjálfkrafa mjög áhættusamt í samanburði við norsku lögsöguna (án tillits til jarðfræðilegra aðstæðna eða lítillar þekkingar á svæðinu). Þær ívilnandi skattareglur um frádrátt frá tekjum sem samþykktar voru í tengslum við setningu íslensku kolvetnislaganna duga skammt til að jafna stöðuna gagnvart norsku reglunum. Afleiðingin er augljóslega sú að draga stórlega úr áhuga olíufyrirtækja á Drekasvæðinu. Það er því kannski ekki að undra að Orkustofnun skuli hafa gengið illa að laða umsækjendur að Drekasvæðinu. Ábyrgðin á lagasetningunni er að sjálfsögðu hjá Alþingi, sem þarna hefði hugsanlega átt að sýna af sér meira raunsæi.
Vonandi tekst samt vel til
Þar með er þó alls ekki útilokað að jafnvel lítið félag geti náð góðum árangri á Drekasvæðinu. Jarðfræðilegar aðstæður virðast nokkuð spennandi og með heppni gæti hvað sem er gerst. En fyrirfram er fjárhagslega áhættan mjög mikil og afar miður að ekki hafi tekist að vekja áhuga sterkari fyrirtækja á svæðinu. Þar er lagaumhverfið í lykilhlutverki. Það má þó til allrar hamingju alltaf laga og bæta.
Bloggar | Breytt 11.10.2012 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2012 | 09:28
Uppgangur á Norðurslóðum
Undanfarin ár hafa nágrannar okkar við norðanvert Atlantshaf sumir hverjir upplifað mikinn efnahagsuppgang. Það á t.d. bæði við um Kanadamenn og Grænlendinga og einnig Norðmenn. Miklar fjárfestingar í þessum löndum má m.a. rekja til þess hversu hrávöruverð hefur verið hátt, þ.e. verð á olíu og á fjölmörgum málmum.
Noregur er einn stærsti olíuútflytjandi heims og því streyma tekjurnar þar inn þegar olíuverð er hátt. Og þar hefur sjaldan ef þá nokkru sinni verið jafn mikill áhugi á að fjárfesta í nýjum kolvetnisleitarsvæðum. Umrædd verðþróun á olíu og málmum hefur líka leitt til verulegra fjárfestinga á Grænlandi. Og þó enn meira í sumum Atlantshafsfylkjum Kanada. Þar er það einkum Nýfundnaland sem hefur notið góðs af. Þá hafa fjölmörg olíufyrirtæki lagt verulega fjármuni í kolvetnisleit í lögsögu Færeyja síðustu árin og sú fjárfesting hefur haft jákvæð áhrif á færeyskt efnahagslíf.
Íslensk stjórnvöld buðu nýverið út sérleyfi til kolvetnisleitar á landgrunni Íslands, þ.e. einkaleyfi til rannsókna og vinnslu á Drekasvæðinu djúpt norðaustur af landinu. Þetta er annað útboðið sem þarna fer fram, en fyrsta útboðið var fyrir um þremur árum. Frólegt er að bera árangurinn af þessum tveimur útboðum Orkustofnunar saman við það hvernig til hefur tekist í slíkum útboðum á öðrum nýjum og nýlegum olíuleitarsvæðum í nágrenni Íslands.
Undanfarin ár hefur Kanada notið mun betra efnahagsástands heldur en flest önnur ríki hins vestræna heims. Þar koma m.a. til gríðarlegar fjárfestingar bæði í kanadíska orkugeiranum og málmavinnslu. Þarna hefur Alberta-fylki verið fremst í flokki vegna vinnslu á olíu úr olíusandi. Einnig hefur Nýfundnaland notið góðs af þessari þróun. Olíufyrirtæki hafa streymt þar út á landgrunnið í olíuleit og einnig hafa námufyrirtæki lagt í miklar fjárfestingar í fylkinu. Loks má hér nefna risastórt vatnsaflsverkefni í Churchill-fljóti í Labrador (sem er hluti af fylkinu). Þar er um að ræða virkjun sem fullbyggð verður hvorki meira né minna en 3.000 MW að afli eða stærri en allar virkjanir á Íslandi til samans.
Þessi þróun hefur leitt til þess að tugir milljarða dollara hafa á skömmum tíma streymt inn í Nýfundnaland. Þetta eru gleðitíðindi fyrir fólk og fyrirtæki á svæðinu, sem upplifðu mikið efnahagslegt áfall þegar þorskstofninn við austurströnd Kanada hrundi um 1990. Niðursveiflan sem það olli leiddi til mikils atvinnuleysis í fylkinu, sem ennþá eimir af.
Annað kanadískt Atlantshafsfylki sem einnig sér fram á bjartari tíma er Nova Scotia. Þar var olíufélagið Shell t.a.m. nýverið að fá einkaleyfi til rannsókna og kolvetnisvinnslu á djúpu svæði úti á landgrunninu langt utan við ströndina. Í þeim samningum skuldbatt Shell sig til að verja 970 milljónum dollara í olíuleitina næstu sex árin. Ef/þegar kemur þar til olíuvinnslu verður svo viðbótarfjárfestingin sennilega a.m.k. á bilinu 2-5 milljarðar dollara.
Árið 2009 fengu Grænlendingar stjórn náttúruauðlinda landsins í sínar hendur. Ári síðar stóðu grænlensk stjórnvöld fyrir sínu fyrsta kolvetnisleitarútboði á landgrunni Grænlands. Þar reyndist eftirspurnin eftir leyfum til rannsókna og vinnslu vera mun meiri en framboðið. Síðla árs 2010 veittu grænlensk stjórnvöld sjö einkaleyfi til samtals átta fyrirtækja. Þau eru breska Cairn Energy, bandaríska ConocoPhillips (á sínum tíma varð Phillips einmitt fyrsta olíufélagið til að finna olíu í lögsögu Noregs), bresk-hollenska Shell, franska GDF Suez, dönsku félögin Dong Energi og Maersk Oil og loks grænlenska ríkisolíufélagið Nunaoil. Nunaoil er þó einungis fremur lítill hluthafi í einkaleyfum á grænlenska landgrunninu og aðkoma félagsins er einfaldlega samkvæmt grænlenskri löggjöf um fyrirkomulag kolvetnisleitarinnar þar (ekkert slíkt íslenskt félag hefur verið sett á stofn vegna fyrirhugaðrar olíuleitar hér).
Það félag sem farið hefur hraðast í olíuleitinni við Grænland er Cairn Enegy. Félagið er afar fjársterkt eftir góðan árangur í olíuleit á Indlandi, þar sem það hagnaðist um marga milljarða dollara fyrir fáeinum árum. Á síðustu tveimur sumrum lagði Cairn um 1,3 milljarða dollara í olíuleitina á Baffinsflóa vestan við Grænland (sú leit fólst m.a. í borunum á nokkrum tilraunabrunnum en einn slíkur brunnur kostar oft á bilinu 100-150 milljónir dollara). Kolvetnisleit Cairn hefur þó enn ekki skilað neinum árangri; ekki hefur ennþá fundist nein olía eða gas í vinnanlegu magni í grænlensku lögsögunni. Það er ekki óeðlilegt og gefur ekki ástæðu til svartsýni. Kolvetnisleitin við Grænland er bara rétt að byrja og við slíkar aðstæður er oft mikið um þurra brunna. Haldist olíuverð áfram hátt kunna að verða miklar framkvæmdir við rannsóknir og kolvetnisleit á grænlenska landgrunninu á næstu árum. Fyrir Íslendinga verður sérstaklega áhugavert þegar kolvetnisleit hefst út af hinni strjálbýlu og lítt aðgengilegu NA-strönd Grænlands, en stutt virðist í að leitin þar fari á fullt.
Það er kunnara en frá þurfi að segja að olíu- og gasiðnaðurinn í Noregi gengur mjög vel. Athyglisvert er að þrátt fyrir að Norðmenn hafi nú verið olíuþjóð í um fjóra áratugi, er ennþá verið að ráðast í afar farsæla kolvetnisleit í norsku lögsögunni - bæði á nýjum leitarsvæðum og gömlum. Þar má nefna að á hinu gamalgróna olíuvinnslusvæði í norska Norðursjónum gerðist það á síðasta ári að þar fannst ein stærsta olíulind í sögu Noregs. Það eru því horfur á að olíuævintýri Noregs endist nokkuð lengi enn.
Í lögsögu Norðmanna í Barentshafi er olíu- og gasvinnsla rétt að byrja. Nýlega fór fram forathugun norsku Olíustofnunarinnar (NPD) vegna fyrirhugaðs útboðs á einkaleyfum í Barentshafi, sem fram fer síðar á þessu ári (2012). Og skemmst er frá því að segja að aldrei áður hefur verið svo mikil eftirspurn eftir nýjum leitarsvæðum í norsku lögsögunni. Meðal áhugasamra félaga í stærri kantinum voru t.d. ConocoPhillips, Dong Energi, Eni, ExxonMobil, GDF Suez, Maersk Oil, Statoil, Shell og Total. Það virðist sem sagt aldeilis ekki skorta áhugann hjá mörgum öflugustu olíufélögum heimsins að taka áhættu á þessu nýja og norðlæga kolvetnisleitarsvæði Norðmanna í Barentshafi.
Færeyjar
Kolvetnisleit á færeyska landgrunninu á sér orðið meira en áratugar sögu. Fyrsta útboð á einkaleyfum til rannsókna og vinnslu fór þar fram árið 2000. Þó svo olíuverð hafi á þeim tíma verið miklu lægra en það er í dag, var áhuginn á útboðinu engu að síður mikill. Alls bárust um tveir tugir umsókna og ákveðið var að veita sjö einkaleyfi til samtals tólf fyrirtækja. Rekstraraðilar þessara leyfa voru fimm fyrirtæki; norska Statoil, breska BP, ítalska ENI og bandarísku olíufélögin Anadarko Petroleum og Hess (sem þá hét Amerada Hess). Allt eru þetta mjög stór félög og með geysilega reynslu af olíuleit og -vinnslu á landgrunninu víða um heim.
Fyrstu brunnarnir á færeyska landgrunninu voru boraðir strax árið 2001 og síðan þá eru borholurnar eða brunnarnir orðnr allmargir. Ennþá hefur þó engin olía (eða gas) fundist þarna í vinnanlegu magni. En þó svo kolvetnisleitin við Færeyjar hafi enn ekki skilað árangri er alltof snemmt að útiloka að Færeyingar eigi eftir að verða olíuþjóð. Nokkrir af þeim brunnum sem boraðir hafa verið í færeysku lögsögunni eru taldir gefa jákvæðar vísbendingar. Og það eru talsvert miklar væntingar um að meiriháttar fréttir muni brátt berast frá Færeyjum. Í augnablikinu er spennan sennilega mest vegna svæðis sem nefnt er Brugdan. Þar er Statoil rekstraraðili og einnig er ExxonMobil stór hluthafi í leyfinu.
Hvort Statoil hittir í mark á Brugdan-svæðinu á eftir að koma í ljós. Í olíubransanum er skynsamlegast að sleppa spádómum og láta verkin tala. Og árangur kefst oftast bæði mikillar þolinmæði og mikils fjármagns. Þess vegna er einmitt mikilvægt að þau félög sem fá einkaleyfi til rannsókna og vinnslu á íslenska Drekasvæðinu hafi reynslu af svona erfiðum svæðum og séu tilbúin að verja miklum fjármunum til kolvetnisleitarinnar.
Fyrsta útboðið á einkaleyfum til rannsókna og vinnslu kolvetnis á íslenska landgrunninu fór fram árið 2009. Þar var um að ræða reiti á Drekasvæðinu, sem liggur milli Jan Mayen og Íslands; djúpt út af NA-landi. Svæðið er sennilega nokkuð erfitt við að eiga, bæði vegna mikils sjávardýpis og vegna þess að basaltið sem þarna er veldur vandkvæðum við að átta sig á hvað þarna leynist undir.
Einungis tvö fremur lítil norsk fyrirtæki skiluðu inn umsóknum í þessu fyrsta útboði árið 2009 (Sagex og Aker Exploration). Bæði fyrirtækin drógu svo umsókn sína til baka nokkru síðar. Ástæðan var m.a. sögð sú að íslenska skattaumhverfið væri óhagstætt (hvernig skattaumhverfið var úr garði gert var reyndar alveg skýrt áður en til útboðsins kom en samt sóttu fyrirtækin um einkaleyfi). Nokkru síðar var lögum breytt til að koma til móts við þessi skattalegu sjónarmið. Í reynd hefði þó sennilega hvorugt umræddra fyrirtækja haft burði til að ráðast þarna í alvöru kolvetnisleit. Það segir líka sitt að hvorugt þessara félaga er lengur starfandi undir sínu nafni, því þau hafa nú bæði runnið inn í önnur stærri félög.
Það var svo fyrr á þessu ári (2012) að Orkustofnun réðst aftur í útboð á Drekasvæðinu. Í þetta sinn voru einkaleyfisumsóknirnar þrjár talsins. Olíufyrirtæki koma að tveimur þessara umsókna. Þau eru bæði bresk; annars vegar Faroe Petroleum og hins vegar Valiant Petroleum. Bæði þessi félög eru með umtalsverða reynslu af þátttöku í kolvetnisleit og þá einkum og sér í lagi í Norðursjó. Þó ber að hafa í huga að í flestum tilvikum hafa félögin einungis verið fremur litlir hluthafar í samstarfi við miklu stærri olíufélög. Þau virðast því vera að feta inn á nýjar brautir með því að vilja verða leiðandi á svo djúpu og lítt þekktu kolvetnisleitarsvæði. Það skýrist svo núna í haust eða vetrarbyrjun hvort Orkustofnun veitir einhver einkaleyfi til rannsókna og kolvetnisvinnslu á Drekasvæðinu.
Lokaorð
Þegar samanburður er hafður af ofangreindri forathugun Noregs og umræddum útboðum Grænlands, Færeyja og Kanada (Nova Scotia), þar sem mörg af stærstu og öflugustu olíufélögum heims voru meðal þátttakenda, er varla hægt að segja að áhuginn á Drekaútboðinu hafi verið mikill. Ekki eitt einasta af stóru eða millistóru olíufélögunum sóttist þar eftir einkaleyfi. Þetta er miður. Því æskilegast er að einkaleyfishafarnir séu með mikla reynslu og nægjanlega fjársterkir til að geta framkvæmt mjög ítarlegar rannsóknir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)