24.11.2012 | 09:24
McKinsey talar fyrir sæstreng
Enn og aftur hefur athygli verið vakin á því hversu arðsemi í íslenska orkugeiranum er lítil.
Ekki er langt síðan út kom skýrsla unnin af Sjónarrönd, þar sem þessi litla arðsemi var útlistuð. Og nú síðast kom þetta fram í nýrri skýrslu bandaríska ráðgjafafyrirtækisins McKinsey.
Skýrsla McKinsey ber yfirskriftina Charting a Growth Path for Iceland. Þar er fjallað um efnahagslega stöðu Íslands og hvaða framtíðaráherslur McKinsey telur skynsamlegar í íslensku efnahagslífi.
Í skýrslunni er talsvert fjallað um íslenska orkugeirann. McKinsey vekur m.a. athygli á því hversu stór hluti allrar fjárfestingar á Íslandi liggi í orkugeiranum og atvinnugreinum sem honum tengjast. Þar á meðal er að sjálfsögðu öll raforkuframleiðslan. Samkvæmt skýrslunni er arðsemin í þeim rekstri hér mjög lítil. McKinsey álítur engu að síður að ýmis tækifæri séu fyrir hendi til að það breytist til batnaðar. Og leggur áherslu á að áríðandi sé að ráðast í aðgerðir í því skyni.
Tækifæri til að stórauka arðsemi raforkufyrirtækjanna
McKinsey segir að helstu ástæður lítillar arðsemi í raforkuframleiðslunni hér séu einkum af tvennum toga. Í fyrsta lagi sé kaupendahópurinn afar einsleitur, en um 70% raforkunnar fer til álvera og samtals fara um 80% til stóriðju. Í öðru lagi valdi einangrun íslenska raforkumarkaðarins því að lítil samkeppni myndast um raforkuna.
McKinsey álítur að mikilvæg forsenda þess að auka arðsemi raforkuframleiðslufyrirtækjanna sé að byggja upp mun fjölbreyttari kaupendahóp. Það merkir í reynd að draga þurfi úr vægi áliðnaðar sem hlutfall af allri raforkunotkun í landinu.
McKinsey vekur athygli á því að mjög hátt hlutfall álveranna og stóriðjunnar á raforkumarkaðnum valdi því að hér hafi verið byggð upp talsverð umframafkastageta í virkjununum. Tilgangurinn er auðvitað sá að auka afhendingaröryggi og tryggja að stóriðjan fái ávallt það rafmagn sem hún þarf. Vegna umframafkastagetunnar er raforkuframleiðslan hér ekki alveg eins hagkvæm og ella væri. Að sögn McKinsey er reyndin sú að um 15% orkunnar fari til spillis með því að vatn úr miðlunarlónum rennur um yfirfall.
Þetta síðastnefnda er eitt af þeim atriðum sem McKinsey telur að geri sæstreng til Evrópu sérlega áhugaverðan kost fyrir íslensku orkufyrirtækin. Þá væri unnt að ná fram meiri nýtingu af fjárfestingu orkufyrirtækjanna hér (einkum og sér í lagi þeirra sem reka vatnsaflsvirkjanir). Þar að auki myndi slíkur strengur opna aðgang að raforkumarkaði þar sem verðið er almennt miklu mun hærra en tíðkast hefur hér á landi.
Meðmæli McKinsey með sæstreng byggja m.a. á þeim rökum að þar með yrði unnt að selja raforku héðan til Evrópu á um 55 EUR umfram framleiðslukostnað á hverja MWst. Þá er miðað við að kostnaðarverð við framleiðslu raforku á Íslandi og flutning til Evrópu sé um 60 EUR/MWst og að kostnaðarverð nýs vindorkuvers í Bretlandi sé um 115 EUR/MWst. Dæmið lítur sem sagt þannig út: 115-60 = 55. Og það eru þessar 55 evrur sem yrðu hreinn hagnaður af hverri seldri MWst í þessu dæmi.
Verulegur hluti umrædds hagnaðar myndi renna til íslensku raforkuframleiðanna (þar yrði Landsvirkjun eðlilega umsvifamest). Í skýrslunni er ekki nákvæmlega tiltekið hversu stór sá hluti kæmi til með að vera, enda er það háð ýmissi óvissu. Það er auðvitað heldur ekki unnt að fullyrða hvert raforkuverð í Evrópu verður til framtíðar og því eru forsendurnar óvissar. En hér má hugsanlega miða við að af umræddum hagnaði rynni rétt rúmlega helmingurinn til raforkuframleiðandans. Það væri þá mögulega nálægt 30 EUR/MWst - sem væri hreinn hagnaður af hverri seldri MWst frá Íslandi um strenginn. Afgangur hagnaðarins myndi svo renna til eiganda sæstrengsins og samstarfsaðila erlendis.
Þetta myndi þýða að íslensku raforkufyrirtækin fengju um 60 EUR/MWst fyrir það rafmagn sem selt yrði um strenginn. Það er sennilega rúmlega helmingi hærra verð en þau fá í dag frá stóriðjunni. Ef forsendur McKinsey standast myndi rafstrengur því skapa íslensku raforkufyrirtækjunu mikinn hagnað og arðsemi þeirra fara úr því að vera afar lítil og yfir í það að verða mjög góð.
Er íslensk raforka auðlind sem gæti jafnast á við norsku olíuna?
McKinsey bendir á að umræddur hagnaður af raforkusölu gæti orðið grundvöllur verulegra arðgreiðslna frá orkufyrirtækjunum til eigenda sinna (sem er ríkið í tilviki Landsvirkjunar og Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög í tilviki Orkuveitu Reykjavíkur). Jafnframt myndi hagnaðurinn verða grundvöllur nýrra skatttekna fyrir íslenska ríkið í formi tekjuskatts vegna aukins hagnaðar raforkufyrirtækjanna.
McKinsey færir rök fyrir því að þessi aukna arðsemi gæti innan nokkurra ára orðið grundvöllur auðlindarentu sem myndi hlutfallslega samsvara greiðslum úr norska Olíusjóðnum til norska ríkisins. Samanburðurinn við Olíusjóðinn norska er væntanlega fyrst og fremst gerður til að setja þessa arðsemismöguleika í eitthvert raunverulegt samhengi sem fólk kannast við. Þetta eru svo sem ekki nýjar fréttir. Landsvirkjun hefur áður kynnt svipaðar sviðsmyndir og þá m.a. stuðst við tölur frá Pöyry og skýrslu sem GAMMA vann fyrir Landsvirkjun.
Allt er þetta auðvitað háð ýmissi óvissu. Það er t.d. ekki unnt að áætla af nákvæmni hvernig raforkuverð kemur til með að þróast í Evrópu á næstu árum eða áratugum (forsendur þar um geta ýmist verið of bjartsýnar eða of svartsýnar). Það er líka talsverð óvissa um hvað sæstengur milli Íslands og Evrópu myndi kosta (þar hafa sést tölur á bilinu 1,5-3 milljarðar EUR). Öll þessi atriði skipta að sjálfsögðu máli þegar meta skal mögulega arðsemi af raforkusölu til Evrópu. En eftir stendur að flestir virðast sammála um að raforkuverð í Evrópu muni hækka umtalsvert næstu ár og áratugi og því sé áhugavert að skoða sæstrengsmöguleikann af mikilli gaumgæfni og alvöru.
Útflutningur á rafmagni er umdeilt pólítískt mál
Inn í þetta blandast ýmis önnur atriði. Þar er kannski helst að nefna það álitaefni hvort íslenska raforku skuli yfir höfuð flytja út eða einungis nýta til innlendrar starfsemi. Sumir vilja ekki að orkan sé flutt út, heldur beri að nýta hana alla til handa framleiðslugreinum og öðru atvinnulífi hér á landi. Ef það sérkennilega sjónarmið verður ofan á, mun það a.m.k. ekki aldeilis flýta fyrir því að arðsemi íslensku raforkufyrirtækjanna aukist svo máli skipti.
Enn eitt álitaefnið er svo það hvort almenningur á Íslandi kærir sig yfir höfuð um aukna arðsemi raforkufyrirtækjanna. Kannski er fólk almennt sátt við núverandi skipan mála í ljósi þess að hún hefur leitt til þess að raforkuverð til almennings hér er umtalsvert lægra en í nágrannalöndum okkar. Það er líklegt að rafstrengur milli Íslands og Evrópu myndi valda einhverri og jafnvel umtalsverðri hækkun á raforkuverði til almennings og íslenskra fyrirtækja almennt. Um það hversu hækkunin yrði mikið er erfitt að fullyrða, en skv. erindi Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, á nýafstöðnum haustfundi fyrirtækisins gæti þessi hækkun orðið innan hóflegra marka.
Það að ráðast í lagningu sæstrengs gæti sem sagt mætt ýmsum andmælum og hindrunum og þá líklega einkum af pólitískum toga. Niðurstaðan hlýtur þó á endanum að verða byggð á viðskiptalegum forsendum fyrst og fremst. Þar sem að sjálfsögðu yrði tekið eðlilegt tillit til ýmissra almennra sjónarmiða, svo sem stefnumótunar Alþingis um virkjanir (þ.e. Rammaáætlunin) og að sjálfsögðu umhverfissjónarmiða.
Skýrsla McKinsey bætir litlu við það sem þegar var vitað m.t.t. orkumála
Umrædd skýrsla McKinsey er að sögn fyrirtækisins algerlega hlutlaus og eingöngu byggð á staðreyndum og túlkun starfsfólks McKinsey's á þeim staðreyndum. Fyrir þann sem hefur áhuga á orkumálum var vissulega áhugavert að lesa skýrsluna. Þar kemur þó fátt nýtt fram. Flest ef ekki allt það sem í skýrslunni segir um íslenska orkugeirann og möguleika hans til framtíðar er þekkt úr ýmsum öðrum gögnum og skýrslum sem birst hafa síðustu misseri og ár.
En þrátt fyrir að McKinsey sé ekki að koma fram með nýjar upplýsingar um íslenska orkugeirann, stendur það eftir að með henni hefur þekkt alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki bent á eftirfarandi: Ef rétt verður haldið á málum hérna kann að vera mögulegt að auka verulega arðsemi af raforkuframleiðslu á Íslandi. Í því skyni álítur McKinsey að leggja beri sérstaka áherslu á aukna fjölbreytnina í hópi raforkukaupenda og skynsamlegt sé að kanna möguleikann á sæstreng af fullri alvöru.
Nýtt álver er sagður vera slæmur kostur
Nefna má að í skýrslu sinni tekur McKinsey það sérstaklega fram að ný álver séu einhver allra lakasti kosturinn til að ná fram aukinni arðsemi í raforkusölunni. Í þessu sambandi er athyglisvert að ennþá virðast margir ef ekki flestir íslensku stjórnmálaflokkanna áhugasamir um að næsta stóra orkuverkefni á Íslandi verði virkjanir fyrir nýtt álver í Helguvík. En ef tekið er mark á orðum McKinsey ætti slík uppbygging a.m.k. ekki að vera forgangsatriði. Í því ljósi mætti ætla að stjórnir íslensku orkufyrirtækjanna séu ekki sérstaklega áhugasamar um að byggja fleiri virkjanir hér sem fyrst og fremst selji raforku til nýs álvers.
Allt þetta mál hefur þó auðvitað margar hliðar. Menn getur t.d. greint á um þjóðhagsleg heildaráhrif stóriðjunnar og t.d. líka greint á um hvort aðferðarfræði McKinsey hefði átt að vera eitthvað öðruvísi. Í kjölfar útkomu skýrslunnar birtu Samtök álfyrirtækja (Samál) athugasemdir þar sem aðferðarfræði McKinsey er beinlínis sögð vera villandi. Þær athugasemdir Samáls voru þó heldur efnisrýrar. Og það er varla til að styrkja málstað Samáls að eina heimildin sem samtökin vísa til er ein lítil blaðagrein í íslensku dagblaði.
Þegar um er að ræða jafn stórt og viðamikið mál eins og orkuframleiðslu til stóriðju hefði maður vænst þess að sjá mun efnismeiri og betur rökstuddar athugasemdir frá Samáli. Samáli hefði líka verið í lófa lagið að benda á að það veikir nokkuð skýrslu McKinsey að hún virðist vanmeta kostnað við að reisa nýjar virkjanir á Íslandi. Einnig virðast skýrsluhöfundar líta framhjá helstu áhættuþáttunum við það að leggja umræddan rafstreng, en bilanatíðni svona strengja er ennþá óþægilega há.
Það er vissulega eðlilegt að við hlustum á öll sjónarmið og reynum að fá sem skýrasta mynd af efnahagslegum áhrifum stóriðjunnar á Íslandi og ekki síður átta okkur á því hvaða tækifæri kunna að vera fyrir hendi til að raforkuframleiðslan hér verði arðbærari en verið hefur. Skýrsla McKinsey er eitt innlegg í þá umræðu. Og sú vinna sem nú er í gangi af hálfu íslenskra stjórnvalda um að skoða möguleikann á rafstreng til Evrópu mun sjálfsagt innan tíðar varpa ennþá skýrara ljósi á hversu raunhæfur þessi möguleiki er.
Mikilvægt er að hagsmunaaðilar allir og fulltrúar almennings kynni sér málið vel og í víðu samhengi og taki það til markvissrar umfjöllunar. Af fréttum að dæma virðist einhver slík umræða vera að hefjast á hinum pólítíska vettvangi. Að svo stöddu er þó skynsamlegt að doka við uns starfshópur sem fjallar um sæstrengsmögueikann hefur skilað áliti sínu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.