Afsláttur veittur af Landsvirkjun?

Nei - það verður enginn afsláttur veittur af Landsvirkjun. A.m.k. ekki ef marka má fyrirsögn Viðskiptablaðsins, þar sem rætt er við Helga Magnússon, stjórnarformann Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Samkvæmt umræddri frétt í Viðskiptablaðinu segir Helgi að enginn fái að kaupa hluti í Landsvirkjun „nema á fullu verði“. Og að það verði „örugglega hátt verð“.

Það er að vísu svo að stjórnarformanður Lífeyrissjóðs verslunarmanna hefur ekkert ákvörðunarvald um eignarhald eða verðlagningu á Landsvirkjun. En svo virðist sem umræða um mögulega einkavæðingu Landsvirkjunar hafi aukist nokkuð síðustu misserin og árin. Sá áhugi virðist einkum og sér í lagi vera meðal þeirra manna sem hafa komist í þá stöðu að ráðstafa lífeyrissparnaði almennings. Og þar sem segja má að almenningur eigi líka Landsvirkjun er skemmtilegt til þess að vita að þeir hinir sömu fullvissa okkur um að enginn afsláttur verði gefinn af Landsvirkjun.

Eftir stendur stóra spurningin; væri kannski skynsamlegt að einkavæða Landsvirkjun? Kannski að öllu leyti? Eða kannski selja helminginn eða bara minnihluta í fyrirtækinu? Eða ætti Landsvirkjun alfarið áfram að vera í eigu ríkisins?

Um þetta eru skiptar skoðanir. Í þessum pistli verður einkum litið til þeirra hugmynda sem Ásgeir Jónsson, hagfræðingur, hefur sett fram um rekstrarform Landsvirkjunar og eignarhaldið á fyrirtækinu. Byrjað verður á að reifa hugmynd Ásgeirs í hnotskurn og að því búnu litið til einstakra röksemda hans. Loks verður nefnt hvernig Norðmenn og fleiri lönd skipa sambærilegum málum hjá sér.

Hugmynd Ásgeirs Jónssonar í hnotskurn

Ásgeir Jónsson hefur um árabil verið nokkuð áberandi í umfjöllun um íslenskt fjármálalíf og þá kannski ekki síst þau ár sem hann var forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings. Undanfarin misseri hefur Ásgeir verið duglegur að mæla með því að Landsvirkjun verði gerð að hlutafélagi. Þar hefur hann lagt til að 30% hlutur í fyrirtækinu verði seldur og Landsvirkjun verði skráð á íslenskan hlutabréfamarkað. Og að ríkið haldi eftir 70% hlut. Nú síðast mátti lesa um þessar hugmyndir í grein sem Ásgeir birti á vef GAMMA og heyra hann tala um þetta í viðtali á vef Viðskiptablaðsins. Og hann færir fram ýmsar röksemdir fyrir þessari leið.

Röksemdin um sterkari hlutabréfamarkað

Ásgeir nefnir að þessi leið einkavæðingar á Landsvirkjun myndi styrkja íslenskan hlutabréfamarkað. Þessi röksemd Ásgeirs er sannfærandi. Hlutabréfamarkaðurinn myndi augljóslega stækka og þar yrði úr meiru að velja. Það eitt og sér myndi væntanlega draga úr hættu á bólumyndun og/eða leiða til eðlilegra verðmats á markaðnum. Það að stækka hinn almenna hlutabréfamarkað kann að vera alveg sérstaklega heppilegt meðan hér gilda gjaldeyrishöft, sem takmarka mjög fjárfestingakosti.

Röksemdin um hlutafjárútboð í framtíðinni

Ein af þeim röksemdum sem Ásgeir nefnir fyrir því að skrá Landsvirkjun á hlutabréfamarkað og selja 30% í fyrirtækinu, er sú að það opni á að Landsvirkjun muni í framtíðinni geta aflað sér aukins hlutafjár með hlutafjárútboði. Þessi röksemd Ásgeirs er augljóslega hárrétt. En vert er að hafa í huga að slíkt hlutafjárútboð myndi þynna út hlut ríkisins í Landsvirkjun - nema ef ríkið tæki sjálft þátt í útboðinu. Hvort það myndi gerast yrði bara að koma í ljós. 

Röksemdin um afnám ríkisábyrgðar

Ásgeir Jónsson segir að umrædd einkavæðingarleið losi skattgreiðendur við ábyrgð af nýjum lánum Landsvirkjunar því slík lán hlutafélagsins Landsvirkjunar yrðu ekki með ríkisábyrgð (öfugt við það sem verið hefur). Þetta er augljóslega hárrétt hjá Ásgeiri.

Ásgeir nefnir einnig að um leið og ábyrgð skattgreiðenda fari af nýjum skuldum Landsvirkjunar hljóti sú gagnrýni að hljóðna að fyrirtækið nýti ríkisábyrgð til þess að niðurgreiða virkjunarframkvæmdir. Þetta er eðlileg röksemd. En hafa ber í huga að það þarf enga hlutafjárvæðingu eða einkavæðingu til að sleppa ríkisábyrgð af framtíðarlánum Landsvirkjunar. Þetta mætti alveg eins gera með því einfaldlega að hætta strax að veita ríkisábyrgð vegna lána Landsvirkjunar. Þarna spyrðir Ásgeir sem sagt saman tvö atriði sem eru í reynd ekki eins nátengd og af rökstuðningi hans mætti ætla.

Þetta eitt og sér, þ.e. afnám ríkisábyrgðarinnar, gæti þar að auki gert Landsvirkjun erfiðara að fjármagna sig en nú er. Til mótvægis við það mætti hugsa sér að ríkið nýtti söluandvirðið til að auka eigið fé Landsvirkjunar. Sú leið myndi geta þýtt að ekkert af söluandvirðinu rynni beint til ríkisins, heldur yrði því öllu eða mestöllu varið í að styrkja eiginfjárstöðu Landsvirkjunar. Ásgeir nefnir einmitt þennan möguleika. Og segir að það myndi hafa jákvæð áhrif á lánshæfismat fyrirtækisins og að með þessu myndi Landsvirkjun öðlast betri möguleika til fjármögnunar.

Það segir sig auðvitað sjálft að aukið eigið fé gefur möguleika á meiri og betri lánum. En það er eflaust umdeilt hvort þessi leið afnáms ríkisábyrgðar en með ríkisframlagi til Landsvirkjunar (sem næmi öllu eða hluta af söluandvirðinu) er skynsamlegust til að bæta lánshæfi fyrirtækisins. Fyrst og fremst hlýtur að vera mikilvægt að fyrirtækið nái að auka arðsemi af rekstri sínum.

Í þessu sambandi má nefna að í málflutningi Ásgeirs hefur komið fram að ríkisábyrgðin ein og sér sé beinlínis til þess fallin að draga úr arðsemi í rekstri fyrirtækisins. Þetta hefur Ásgeir orðað þannig að á meðan „ríkið ábyrgist fjárfestingar orkufyrirtækja verður alltaf hætta á að stjórnendur þeirra freistist til þess að leggja í fjárfestingar sem ekki ganga upp á frjálsum markaði.“ Þessi meinti freistnivandi stjórnenda Landsvirkjunar tengist líka annarri röksemd sem Ásgeir nefnir fyrir umræddri einkavæðingarleið:

Röksemdin um pólitíska hagsmunaárekstra

Ásgeir álítur að með einkavæðingarleiðinni skapist meiri fjarlægð á milli pólitískra kjördæma- og atvinnugreinahagsmuna og reksturs fyrirtækisins. Þetta má kannski líka orða þannig að með einkavæðingarleiðinni yrði dregið úr hættunni á pólitískum hagsmunaárekstrum, sem m.a. kunni að hafa óæskileg áhrif á ákvarðanatöku stjórnar og stjórnenda Landsvirkjunar.

Sá sem þetta skrifar hefur reyndar ekki orðið var við annað en að stjórn Landsvirkjunar hafi það ávallt að leiðarljósi að starfa í samræmi við lögin sem um fyrirtækið gilda. Vissulega er stjórnin pólitískt skipuð og vissulega má segja að þarna sé hætta eða möguleiki á pólitískum afskiptum. En myndi það breytast ef ríkið ætti einungis 70% í Landsvirkjun en ekki 100%? Það blasir nú ekki alveg við.

Umrædd röksemd Ásgeirs er kannski skiljanleg. En meintur vandi hlyti þó að vera áfram til staðar í fyrirtæki sem áfram yrði að svo stóru leyti í eigu ríkisins. Maður hefði fremur búist við því að Ásgeir beitti þessari röksemd fyrir því að æskilegt væri að einkaaðilar eignist a.m.k. helminginn í fyrirtækinu eða jafnvel meira. En hann fer ekki þá leið, heldur álítur hann þvert á móti eðlilegt að ríkið eigi áfram 70% í Landsvirkjun:

Röksemdin um eðli starfseminnar

Í röksemdafærslu sinni fyrir umræddri einkavæðingu á 30% hlut í Landsvirkjun tiltekur Ásgeir rök fyrir því af hverju þetta sé passlega stór hlutur að selja. Þ.e. af hverju ríkið eigi að halda eftir 70% hlut. Þar vísar hann til eðlis starfseminnar. Þ.e. að þarna sé verið að nýta auðlindir landsins. Því sé, að mati Ásgeirs, ekki óeðlilegt að þjóðin (þar á hann væntanlega við ríkið) eigi drjúgan bróðurpart í félaginu, eins og hann orðar það.

Hvort þetta er skotheld röksemd hjá Ásgeiri eða ekki er sjálfsagt umdeilanlegt. Með sömu röksemdum væri væntanlega alveg jafn eðlilegt að ríkið ætti traustan meirihluta í öllum sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Sá sem þetta skrifar grunar að Ásgeir Jónsson sé alls ekki á því að auka beri ríkiseigu í sjávarútveginum. En Ásgeir talar sem sagt fyrir 70% ríkiseign í Landsvirkjun vegna þess að Landsvirkjun nýtir auðlindir landsins.

Margar af ofangreindum röksemdum Ásgeirs Jónssonar fyrir því að einkaaðilar eignist 30% hlut í Landsvirkjun eru nokkuð sterkar. En aðrar eru veikari. Einkennilegast er þegar Ásgeir vísar til Statoil sem fordæmis. Um þetta atriði er vert að fjalla sérstaklega:

Röksemdin um fordæmi Norðmanna

Í viðtali við sjónvarp Viðskiptablaðsins segir Ásgeir Jónsson að það að skrá Landsvirkjun á hlutabréfamarkað og selja 30% í fyrirtækinu sé svipuð leið eins og Norðmenn hafi farið með Statoil (norska ríkið á einmitt 67% hlut í Statoil). Og segir þetta vera dæmi um hvernig bæði megi nýta kosti hlutabréfaskráningar og um leið tryggja að þjóðin njóti arðsins af auðlindinni.

Þetta er nokkuð sérkennileg röksemdarfærsla og reyndar virðist hún að einhverju leyti byggjast á misskilningi. Vissulega var Norðmönnum ávallt umhugað að tryggja að stór hluti af arðinum af olíu- og gasvinnslunni færi til norska ríkisins og þar með þjóðarinnar. En þar er ríkiseignin á 67% hlut í Statoil ekkert aðalatriði. Heldur miklu fremur bara aukaatriði.

Af öllum tekjum norska ríkisins af olíu- og gasvinnslunni kemur einungis um eða innan við 5% í gegnum eign ríkisins í Statoil! Svo til allar tekjur norska ríkisins af umræddum auðlindum (nálægt 95%) koma annars vegar gegnum skattkerfið (þ.e. háir skattar og gjöld á fyrirtækin sem stunda olíu- og gasvinnslu á norska landgrunninu) og hins vegar vegna beinnar eigu norska ríkisins á hlut í vinnsluleyfum. Þetta síðastnefnda er gert í gegnum sérstakan sjóð, sem nefnist Statens direkte økonomiske engasjement (SDØE) og er stýrt af ríkisfyrirtækinu Petoro. Sá sjóður og sömuleiðis Petoro eru vel að merkja allt annað fyrirbæri en risaolíufélagið Statoil, sem vinnur olíu og gas út um veröld víða.

Það eru sem sagt skattarnir og eign norska ríkisins í olíuvinnsluleyfum sem skilar norska ríkinu um 95% af þeim tekjum sem ríkið hefur af þessum atvinnurekstri. Arður vegna Statoil skilar þarna núna einungis um 5%. Það að norska ríkið á stóran hlut í Statoil (67%) hefur því sáralítið með það að gera að norska þjóðin nýtur arðsins af kolvetnisauðlindunum. 

Þar að auki á Statoil í reynd fátt ef nokkuð skylt með fyrirtæki eins og Landsvirkjun. Röksemdirnar um markaðsskráningu og sölu á hlut í Statoil á sínum tíma voru því talsvert annars eðlis en röksemdir um einkavæðingu á ámóta stórum hlut í Landsvirkjun. Einkavæðing á hlut í Statoil árið 2001 var lykilatriði til að fyrirtækið gæti orðið sá alþjóðlegi risi sem það er í dag. Það var sú framtíðarsýn sem var helsti hvatinn að baki því að norska ríkið skráði Statoil á hlutabréfamarkað og seldi hlut í fyrirtækinu.

Þarna hafði m.a. áhrif sú mikla sameiningarbylgja sem varð um aldamótin síðustu í olíuiðnaði heimsins. Þá sameinuðust t.d. Exxon og Mobil, Chevron og Texaco og einnig BP og Amaco. Verkefnin í olíubransanum voru að verða sífellt erfiðari og dýrari og til að takast á við þessa framtíð og samkeppnina þurfti öflugri félög. Það var þá sem norsk stjórnvöld ákváðu að skrá Statoil á hlutabréfamarkað og selja hlut í fyrirtækinu (upphaflega um 18%). Nokkru síðar rann olíuvinnsla Norsk Hydro inn í Statoil og nú á norska ríkið 67% hlut í fyrirtækinu. Statoil er í dag enn af olíurisum heimsins og t.a.m. með hvað allra mesta reynslu á djúphafssvæðum. Fyrirtækið stundar umsvifamikinn og afar áhættusaman rekstur út um veröld víða, eins og t.d. í Angóla, Azerbaijan, Kína, Líbýu og í Alsír (eins og við vorum nýlega minnt á).

Í stað þess að vísa til Statoil sem fyrirmyndar fyrir einkavæðingu á Landsvirkjun ætti Ásgeir Jónsson kannski fremur að leita fordæma í rekstri sem er skyldari þeim sem Landsvirkjun fæst við. Hann hefði t.a.m. getað haft samanburð af norska raforkufyrirtækinu Statkraft. Eða litið til fjölda annarra stórra vatnsaflsfyrirtækja í Noregi, Svíþjóð eða annars staðar í Evrópu, Kanada eða Bandaríkjunum. En þá hefði að vísu komið í ljós að almennt séð er hið opinbera lítt á því að einkavæða slík fyrirtæki - hvort sem er í heild eða að hluta. Það kemur m.a. til af þeirri miklu sérstöðu sem vatnsaflið hefur:

Vatnsafl hefur mikla sérstöðu

Bæði norska Statkraft og sænska Vattenfall eru alfarið í ríkiseigu. Þarna er vel að merkja um að ræða langstærstu raforkufyrirtækin í Noregi og Svíþjóð og bæði byggja þau mjög á vatnsafli (Statkraft þó sýnu meira en Vattenfall). Að því leyti svipar þeim talsvert til Landsvirkjunar.

Í Noregi er líka fjöldi annarra fyrirtækja sem svipar ennþá meira til Landsvirkjunar heldur en Statkraft eða Vattenfall. Þ.e. fyrirtæki sem eru fyrst og fremst vatnsaflsfyrirtæki og starfa eingöngu innanlands - eins og á við um Landsvirkjun (bæði Statkraft og Vattenfall eru aftur á móti komin með umtalsverða starfsemi erlendis). Hér má nefna fyrirtæki eins og ECO, Agder Energi, BKK, og Lyse Energi, en þau eru öll 100% í opinberri eigu og öll meðal stærstu raforkufyrirtækja í Noregi.

Ef við ætlum að leita fyrirmynda í Noregi - eða jafnvel í Svíþjóð - þá blasir við að þessir norrænu frændur okkar hafa aðhyllst algert eignarhald hins opinbera á stærstu raforkufyrirtækjunum. Þess vegna sker svolítið í augu þegar Ásgeir Jónsson heldur því fram að hið norræna fordæmi séu rök fyrir því að 30% hlutur í Landsvirkjun fari á markað. Og einnig kemur á óvart að sjá hann halda því fram að frændþjóðum okkar hafi heppnast að ná sátt um auðlindir sínar sem hvoru tveggja byggir á hagrænni skynsemi og sjálfbærri nýtingu, en að það hafi okkur ekki tekist. Þetta er málflutningur sem stenst ekki skoðun.

Sá sem þetta skrifar er á því að almennt sé einkarekstur heppilegri og árangursríkari en ríkisrekstur. En það er lítið vit í því að vísa til Statoil sem fyrirmyndar þegar tína á til röksemdir fyrir einkavæðingu á 30% hlut í Landsvirkjun. Og samanburður við Statkraft og Vattnenfall sýnir að núverandi eignarhald á Landsvirkjun rímar bara mjög vel við norræna módelið. 

Það er líka athyglisvert í þessu sambandi að nálægt því 70% alls virkjaðs vatnsafls í Bandaríkjunum er í opinberri eigu. Upphaf þess á sér sögulegar skýringar; margar af helstu vatnsaflsvirkjunum Bandaríkjanna voru byggðar af hinu opinbera. Frá því það byggingatímabil var í hámarki hefur mikið vatn runnið til sjávar - í orðsins fyllstu merkingu. En bæði alríkið og fylkin hafa engu að síður haldið fast í virkjanirnar þarna í landi einkaframtaksins.

Það vill nefnilega svo til að vatnsaflið er mjög óvenjuleg auðlind. Sú auðlind er ekki bara endurnýjanleg, heldur er þetta oft geysilega ódýr kostur til raforkuframleiðslu. Og líftími vatnsaflsvirkjananna er afar langur og viðhaldskostnaður oft mjög lítill. Þess vegna er stundum talað um að vatnsaflsvirkjanir mali gull. Og þess vegna fara meira að segja Bandaríkjamenn afar varlega í einkavæðingu á vatnsaflsfyrirtækjum. Þetta er vert að hafa í huga.

Er að myndast pólitísk samstaða um sölu á Landsvirkjun?

Fáir stjórnmálamenn hafa lýst skoðun sinni á mögulegri sölu á Landsvirkjun. Það er því nokkuð óljóst hversu mikill stuðningur er meðal þeirra við einkavæðingarleið af því tagi sem Ásgeir Jónsson hefur lagt til.

Það er líka óljóst hversu verðmætt fyrirtæki Landsvirkjun er, en hugsanlega mun það verðmæti aukast mjög á næstu árum. Aukin umræða undanfarin misseri og ár um mögulega einkavæðingu á Landsvirkjun - að hluta til eða í heild - bendir svo sannarlega til þess að margir hafi áhuga á að eignast hlut í þessu merka fyrirtæki.

Í þessu sambandi er vert að hafa í huga þá staðreynd að Landsvirkjun hefur að undanförnu kynnt hugmyndir um hvernig hugsanlega megi stórauka arðsemi fyrirtækisins á komandi árum og áratugum. Gangi sú sýn eftir má gera ráð fyrir að verðmæti Landsvirkjunar margfaldist. Þess vegna er kannski ekki skrýtið þó nú fýsi margan að eignast hlut í fyrirtækinu. En af sömu ástæðu er kannski hæpið að eigandi Landsvirkjunar - ríkið - sjái hag í því að selja hlut í fyrirtækinu nú um stundir.

Á móti kemur, að til að ná þeirri hækkuðu arðsemi sem Landsvirkjun hefur kynnt, þarf talsvert miklar fjárfestingar. Og það kynni að verða erfitt að fjármagna þær framkvæmdir allar nema að fá nýtt eigið fé inn í fyrirtækið - og þá eftir atvikum hluta þess frá einkaaðilum. Við eigum að skoða þetta fordómalaust. Ásgeir Jónsson leggur fram ýmsar röksemdir fyrir því að gera eigi Landsvirkjun að almenningshlutafélagi og selja um þriðjung í fyrirtækinu. Sumar þessar röksemdir eru prýðilegar, en aðrar þeirra eru veikari.

Nú kemur senn að kosningum til Alþingis. Athyglisvert er að bæði Árni Páll Árnason og Bjarni Benediktsson hafa sagt hugmyndir um að selja um 30% hlut í Landsvirkjun vera áhugaverðar. Einnig hefur landsfundur Framsóknarflokksins samþykkt svipaða hugmynd. Innan VG virðist aftur á móti veruleg og almenn andstaða við slíkar hugmyndir.

Árni Páll, sem sigraði með yfirburðum í formannskosningu Samfylkingarinnar nú um helgina, hefur reyndar bent á að full mikið hafi verið gert úr umræddum orðum hans. Hann hafi einungis í einu viðtali fyrir meira en ári síðan haft uppi orð um að þessi möguleiki gæti verið áhugaverður. Og síðan þá hafi hann séð ýmsa galla á að fara slíka leið. Árni Páll álítur því bersýnilega ekki tilefni til að setja einkavæðingu á Landsvirkjun í einhvern forgang. Og óneitanlega virðist sú afstaða hans skynsamleg.

Það er því sennilega langt í frá að einhver breið pólitísk samstaða sé að myndast um að gera Landsvirkjun að almenningshlutafélagi og selja umtalsverðan hlut í fyrirtækinu. Enda mörg önnur brýnni mál sem stjórnmálamennirnir okkar þurfa að takast á við á næstunni - heldur en að selja það sem sumir Íslendingar myndu kalla ættarsilfrið.

Í þessu sambandi er líka vert að hafa í huga að ný skoðanakönnun bendir til þess að veruleg andstaða sé meðal þjóðarinnar við slíkar einkavæðingarhugmyndir. Stjórnmálamenn munu því sennilega almennt fara varlega í það í aðdraganda Alþingiskosninganna, að tala fyrir sölu ríkisins á Landsvirkjun. Við sjáum hvað setur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband