Jarðvarmaráðstefna í heimsklassa

Í næstu viku fer fram stór og metnaðarfull jarðvarmaráðstefna hér í Reykjavík; Iceland Geothermal Conference 2013.

Ráðstefnan stendur yfir dagana 5.-7. mars. Meðal fyrirlesaranna er bæði að finna margt af fremsta vísindafólki heims á sviði jarðvarmans og ýmsa aðra mjög áhrifamikla einstaklinga. Í þeim hópi er fólk sem getur haft mikið um það að segja hvernig uppbygging verður í jarðvarmageiranum víða um heim á komandi árum. Listinn yfir fyrirlesarana ber það m.ö.o. með sér að afar vel hafi verið staðið að undirbúningi ráðstefnunnar.

Af fyrirlesurunum má t.d. nefna Sri Mulyani Indrawati, sem er ein af þremur æðstu framkvæmdastjórum Alþjóðabankans (World Bank). Hún var áður fjármálaráðherra á Indónesíu og varð heimsþekkt fyrir skelegga baráttu sína gegn spillingu í indónesíska stjórnkerfinu. Einnig vakti hún eftirtekt fyrir árangursríkar aðgerðir í að lækka ríkisskuldir þar í landi.

Sri Mulyani er ekki aðeins mjög hátt sett hjá Alþjóðabankanum, heldur hefur hún ítrekað verið útnefnd ein af áhrifamestu konum heimsins af viðskiptatímaritinu Forbes. Undir verksvið hennar hjá Alþjóðabankanum kemur m.a. bæði SA-Asía og Afríka. Þarna er að finna fjölmörg lönd sem búa yfir geysilegum möguleikum til að nýta jarðvarma. Þar eru tvímælalaust ýmis tækifæri til að selja og nýta íslenska jarðvarmaþekkingu; bæði í uppbyggingu á virkjunum og hitaveitum. Og eins og áður sagði er Sri Mulyani frá Indónesíu, sem er meðal þeirra landa sem hafa verið framarlega í nýtingu á jarðvarma.

Að öðrum fyrirlesurum ólöstuðum er vert að nefna Þjóðverjann Günther Oettinger, framkvæmdastjóra orkumála hjá Evrópusambandinu, en hann er einn af aðalfyrirlesurunum (Keynote Speakers). Í þessu sambandi er vert að minna á að ESB-ríkin hafa komið sér saman um bindandi markmið um að stórauka nýtingu á endurnýjanlegri orku. Þó svo vindorka og sólarorka fái þar jafnan mestu athyglina, þá skapar þetta einnig áhugaverð tækifæri í jarðvarmageiranum.

Nokkur íslensk fyrirtæki hafa einmitt lagt áherslu á að nýta þessi tækifæri og flytja út íslenska jarðvarmaþekkingu. Þar er verkfræðifyrirtækið Mannvit framarlega og má sem dæmi nefna aðkomu Mannvits að uppbyggingu jarðhitavirkjunar í Ungverjalandi. Einnig tekur Mannvit þátt í athyglisverðu verkefni, þar sem unnin verður framkvæmdaáætlun um að stórauka notkun jarðvarma í Evrópu (verkefnið nefnist Geoelec).

Á ráðstefnunni verður einnig áhugavert að heyra erindi frá Mike Allen, sem er leiðandi í jarðvarmageiranum á Nýja Sjálandi. Þar í landi er mikinn jarðhita að finna og löng og góð reynsla af nýtingu hans. Allen hefur líka unnið að slíkum verkefnum víðar um heiminn og er þar að auki stjórnarformaður fyrirtækis sem nefnis ReEx Capital Asia. Það fyrirtæki vinnur að fjármögnun verkefna á sviði endurnýjanlegrar orku í SA-Asíu og er með aðalstöðvar í Singapore.

Aðkoma ofangreindra fyrirlesara á Iceland Geothermal Conference 2013 sýnir að ráðstefnan er mjög framarlega á sínu sviði. Fjöldi annarra sérfræðinga og starfsfólks í jarðvarmageiranum sem vert væri að nefna, verður með erindi á ráðstefnunni. Þar á meðal eru margir Íslendingar, en til að forðast að gera upp á milli þeirra skal látið nægja að vísa til dagskrár ráðstefnunnar. Svo er vert að nefna að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, er verndari ráðstefnunnar. Hann mun eiga talsverðan heiður af því hversu vel tókst til að skapa þennan vettvang og því sannarlega vel til fallið að hann flytji lokaorðin á ráðstefnunni.

Af vef Iceland Geothermal Conference 2013 sést að nú eru vel á fjórða hundrað þátttakendur skráðir til leiks og það frá á þriðja tug ríkja. Fjölbreytnin er sem sagt mikil; bæði meðal fyrirlesara og gesta. Og það er varla hægt að hugsa sér betri staðsetningu fyrir alþjóðlega ráðstefnu af þessu tagi en hér á suðvesturhorni Íslands. Þó svo sá sem þetta skrifar sé fremur lítið fyrir að vera að veifa frösum um að Ísland sé bezt í heimi, þá er það staðreynd að hér er nýting á jarðhitanum afar mikil og fjölbreytt. Þar er upphitun og raforkuframleiðsla auðvitað umfangsmest, en einnig margvísleg önnur nýting eins og áður hefur verið minnst á hér á þessum vettvangi. Enda verður tækifærið notað og ráðstefnugestum gefinn kostur á vettvangsferðum um bæði Hengilsvæðið og Reykjanesið. Þar er upplagt að útlendingarnir - sem og aðrir ráðstefnugestir - skoði með eigin augum hvernig jarðhitinn á Íslandi er nýttur með fjölbreyttum hætti.

Það er fyllsta ástæða til að óska aðstandendum Iceland Geothermal Conference 2013 til hamingju með hversu vel hefur til tekist með undirbúninginn. Þau Hákon Gunnarsson og samstarfsfólk hans hjá fyrirtækinu Gekon eru reyndar ekki aðeins skipuleggjendur þessarar veglegu ráðstefnu. Heldur á Gekon einnig veg og vanda að tilurð íslenska jarðvarmaklasans, sem var komið á fót fyrir nokkrum árum og var nýverið útfærður sem Iceland Geothermal. Að þessu verkefni standa mörg mikilvægustu fyrirtæki landsins, eins og Arion banki, Mannvit, Landsnet og Landsvirkjun, sem öll eiga fulltrúa í stjórn Iceland Geothermal. Samtals eiga nú rúmlega fjórir tugir fyrirtækja aðild að verkefninu og líklegt að þeim fjölgi enn frekar á næstunni.

Nú er bara að hlakka til næstu viku þegar ráðstefnan Iceland Geothermal Conference 2013 fer fram i Hörpu. Þetta gæti orðið góð vítamínsprauta fyrir mörg íslensk fyrirtæki sem tengjast jarðvarmanum með einum eða öðrum hætti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband