Nýtum tækifærin í orkustefnu Bretlands

Milljarðar punda streyma nú í ný raforkuverkefni í Bretlandi. Þær fjárfestingar koma til vegna nýsamþykktrar orkustefnu Bretlands. Fyrir okkur Íslendinga er sérstaklega athyglisvert að sjá hvernig þessi nýja orkustefna Bretlands getur nýst íslenskri orkuþekkingu og orkuframleiðslu.

Í liðinni viku var tilkynnt um fyrstu lotu orkufjárfestinga vegna hinnar nýju orkustefnu. Þar var um að ræða 12 milljarða punda fjárfestingu í átta nýjum verkefnum. Þetta er þó aðeins byrjunin á miklu stærri orkufjárfestingum. Áætlað er að fram til ársins 2020 verði fjárfest fyrir um 110 milljarða GBP í breska orkukerfinu. Það samsvarar rúmlega 20 þúsund milljörðum ISK.

Þetta er afar áhugavert skref hjá Bretum. Þessar gríðarlegu fjárfestingar verða fyrst og fremst í nýjum orkuverum og uppbyggingu í raforkuflutningi og dreifikerfi. Á næstu misserum verður stefnan útfærð nánar og vinnu breska orkumálaráðuneytisins (DECC) haldið áfram við forgangsröðun verkefna. Þarna kunna að bjóðast ýmis tækifæri, t.d. fyrir íslenska jarðvarmaþekkingu fyrirtækja eins og Mannvits o.fl. Ennþá stærra hagsmunamál er þó möguleikinn á sæstreng milli Íslands og Bretlands.

Tímamótalöggjöf

Þessi nýja orkustefna Bretlands byggist á löggjöf sem samþykkt var á breska þinginu seint á árinu 2013 (the Energy Act). Þessari nýju löggjöf er ætlað að efla orkuöryggi Bretlands. Það gerist með auknum aðgangi að orku og aukinni fjölbreytni í orkuframleiðslunni. Um leið verður hlutfall endurnýjanlegrar orku aukið og þannig leitast við að takmarka losun koldíoxíðs og annarra gróðurhúsalofttegunda.

Breska orkustefnan byggir á athyglisverðu hvatakerfi. Sem felst í því að bresk stjórnvöld tryggja þátttakendunum (raforkufyrirtækjum sem útvega nýja raforku) tiltekið lágmarksverð fyrir orkuna í fyrirfram ákveðinn árafjölda. Þessi tímamótalöggjöf veldur því að fjölmörg fyrirtæki sjá það nú sem mjög áhugaverðan kost að fjárfesta í orkuverkefnum í Bretlandi.

Breska leiðin dregur stórlega úr áhættu nýfjárfestinga í orkuiðnaðinum og má að sumu leiti líkja þessu við hvatakerfi Norðmanna gagnvart nýfjárfestingum í olíuleit á norska landgrunninu. Enda var mikill áhugi á þátttöku í fyrstu lotu nýrra orkufjárfestinga skv. bresku orkustefnunni. Og eins og áður sagði voru þar samþykkt verkefni sem fela í sér um 12 milljarða GBP fjárfestingu.

Norræn fyrirtæki meðal þeirra fyrstu sem njóta góðs af

Útfærsla nýju bresku orkustefnunnar er sem sagt komin á fullt og afar jákvætt að sjá hversu bresk stjórnvöld virðast ætla að taka málið föstum tökum. Þegar litið er til þeirra átta verkefna sem tilkynnt var um nú í vikunni sem leið, er athyglisvert að sjá hvernig Norðurlöndin eru að njóta góðs af orkustefnu Bretanna. Af þessum átta verkefnum koma stóru skandinavísku ríkisorkufyrirtækin að fjórum verkefnanna!

Danska Dong Energi er þarna framkvæmdaaðili að þremur geysistórum vindorkuverum (Borbo, Hornsea og Walney; samtals um 2.200 MW). Og fjórða vindorkuverkefnið (Dudgeon; 400 MW) er í samstarfi norsku fyrirtækjanna Statoil og Statkraft (síðarnefnda fyrirtækið er alfarið í eigu norska ríkisins).

Þarna eru ekki síður tækifæri fyrir íslensk orkufyrirtæki. Hin nýja löggjöf og stefna í orkumálum Bretlands opnar nefnilega ekki aðeins á fjárfestingar í nýjum orkuverum. Hún felst einnig í sérsamningum sem eiga að auka möguleika Bretlands til aðgangs að orku erlendis frá. Þetta mun gerast með nýjum kapaltengingum (sæstrengjum) við nágrannalöndin. Þegar litið er til Íslands er augljóst að þarna eru stærstu hagsmunirnir hjá Landsvirkjun og eiganda þess fyrirtækis, sem er íslenska ríkið og þar með íslenska þjóðin öll.

Ný orkuver og nýir sæstrengir

Í dag hefur Bretland slíkar tengingar við Frakkland, Holland og N-Írland. Þess er vænst að það skýrist á næstu misserum hvaða nýja kapla bresk stjórnvöld munu setja í forgang. Niðurstaðan þar mun að sjálfsögðu ráðast af breskum hagsmunum, en einnig því hversu áhugasöm önnur ríki verða um slíkar tengingar

Þau lönd sem Bretar hafa helst verið að horfa til eru lönd sem búa yfir orkulindum sem gætu spilað vel með breska raforkukerfinu. Þar eru vatnsaflsríki hvað áhugaverðust, enda er sú orka bæði umhverfisvæn (enginn kolvetnisbruni) og stýranleg (vegna miðlunarlóna).

Norðmenn búa yfir miklu vatnsafli og bæði bresk og norsk stjórnvöld hafa verið áhugasöm um kapaltengingu á milli landanna. Viðræður um slíkan kapal hafa um skeið átt sér stað milli orkufyrirtækja og raforkuflutningsfyrirtækja og virðast þær viðræður á góðu skriði. Staðan núna er sú að stefnt er að ákvörðun um fjárfestinguna á þessu ári (2014) og að strengur milli Noregs og Bretlands geti verið kominn í gagnið árið 2020.

Kaplar af þessu tagi geta einnig reynst mjög notadrjúgir til að bæta nýtingu vindorkuvera. Þess vegna hafa verið til skoðunar kapaltengingar Bretlands við bæði Belgíu og Írland. Slíkar fjárfestingar eru þó háðar miklu meiri óvissu heldur en tenging sem byggir fyrst og fremst á vatnsafli (þar er jarðvarmi líka mjög áhugaverður kostur). Það ætti því ekki að koma á óvart að viðræður Breta um streng milli Bretlands og Noregs virðast lengra á veg komnar og njóta meiri áhuga en tengingar sem fyrst og fremst byggja á vindorku.

Bresk stjórnvöld hafa sýnt sæstreng milli Íslands og Bretlands áhuga

Orkustefna Bretlands gæti falið í sér stærsta efnahagstækifæri Íslands til þessa. Þar um ríkir þó margvísleg óvissa. Til að minnka óvissuna og geta lagt mat á líklega hagkvæmni slíks verkefnis er algert lykilatriði að halda áfram viðræðum við Breta um samstarf á sviði orkumála. Þar er um að ræða framhald á samstarfi sem byrjaði með undirritun minnisblaðs af hálfu orkumálaráðherra landanna vorið 2012. Nú, nærri tveimur árum síðar, er það mál að vísu í nokkurri óvissu. Ástæður þess hversu þetta mál er ennþá óljóst virðast alfarið vera að rekja til íslenskra stjórnvalda.

Nýr orkumálaráðherra (Ed Davey) tók sæti í bresku ríkisstjórninni um áramótin 2012/2013. Ekki leið á löngu þar til nýi ráðherrann átti fund með sendiherra Íslands í London, þar sem velt var upp möguleikum um framhald viðræðnanna um samstarf landanna á sviði orkumála. Sendiherrann íslenski kom skilaboðum um þennan fund til utanríkisráðuneytisins og í framhaldinu til iðnaðarráðuneytisins (atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins). Af skilaboðum sendiherrans til íslenskra stjórnvalda heima fyrir er ljóst að það sem breski orkumálaráðherrann lagði þarna mesta áherslu á var hinn mögulegi rafmagnskapall á milli landanna.

Breska orkumálaráðuneytið (DECC) óskaði fundar sumarið 2013 

Í framhaldi af fundi sendiherrans með breska orkumálráðherranum vorið 2013 óskaði orkumálaráðuneytið (DECC) eftir fundi þar sem bæði yrðu fulltrúar frá Landsvirkjun og íslenska iðnaðarráðuneytinu. Á þessum tíma lágu fyrir niðurstöður og tillögur ráðgjafarhóps iðnaðarráðherra um raforkustreng til Evrópu og einnig skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagsleg áhrif sæstrengs. Þarna lágu því margvíslegar upplýsingar fyrir um stöðu málsins og hvað þyrfti að skýra betur. Og umræddur fundur hefði vafalítið skýrt ýmis þau atriði sem Hagfræðistofnun og ráðgjafarhópnum þóttu vera óljós. 

Í samráði við DECC lagði sendiherrann til við íslensk stjórnvöld að fundur færi fram í London síðla í júlí 2013 (fundardagurinn átti að vera 22. júlí). Af þessum fundi varð þó ekki, því íslenski iðnaðarráðherrann hafnaði því að senda fulltrúa á fundinn. Iðnaðarráðherrann taldi eðlilegast að fyrst myndi Alþingi taka til umfjöllunar áðurnefnda skýrslu ráðgjafarhóps iðnaðarráðherra (sem hafði verið skilað til ráðherra þarna í sumarbyrjun 2013). Því var fundinum með DECC aflýst með stuttum fyrirvara af hálfu Íslands. Umrædd skýrsla ráðgjafarhópsins fór svo til umfjöllunar í atvinnuveganefnd Alþingis um haustið (2013).

Sú spurning vaknar hvort rétt hafi verið hjá iðnaðarráðherra að hægja með þessum hætti á viðræðum við bresk stjórnvöld? Í þessu sambandi er eftirtektarvert að sjá að í skilaboðum sínum til íslenskra stjórnvalda, skömmu fyrir fyrirhugaðan fund með DECC sumarið 2013, benti sendiherra Íslands í London á að fundur með DECC væri algerlega óskuldbindandi af Íslands hálfu. Sendiherrann benti einnig á að með fundinum gætu fengist mikilvægar upplýsingar um t.d. orkuverð og tímaramma (þetta má sjá í gögnum sem ég hef nýlega fengið aðgang að hjá DECC og íslensku stjórnsýslunni).

Viðræður við bresk stjórnvöld hafa nú tafist nokkuð lengi

Það má taka undir þessi sjónarmið sendiherrans. Það fólst ekki nein áhætta í því fyrir Ísland að ræða málið við DECC sumarið 2013. Slíkar viðræður hefðu þvert á móti getað varpað skýrara ljósi á málið. Þar með hefði atvinnuvegnefnd Alþingis haft úr meiri og betri upplýsingum að moða og óvissuþættirnir verið færri. 

Í þeim íslensku úttektum sem unnar hafa verið um sæstrengsmöguleikann kemur hvarvetna fram að illmögulegt eða ómögulegt sé að meta ávinning af verkefninu nema nákvæmari upplýsingar fáist um orkuverðið, kostnað við strenginn og þau mismunandi viðskiptamódel sem koma til greina. Þetta sjónarmið er einmitt enn og aftur áréttað í umræddu áliti atvinnuveganefndar Alþingis um áðurnefnda skýrslu ráðgjafarhóps um raforkustreng til Evrópu.

Umrædd umfjöllin atvinnuveganefndar Alþings fór fram nú í vetur sem leið og lauk seint í janúar 2014. Í ljósi atburðarásarinnar kemur ekki á óvart að vinna atvinnuveganefndar þingsins skilaði ekki neinum umtalsverðum nýjum upplýsingum um málið. Niðurstaða nefndarinnar var fyrst og fremst ítrekun á þeim ábendingum sem komu fram í fyrirliggjandi skýrslum Hagfræðistofnunar og ráðgjafarhóps iðnaðarráðherra um sæstreng. Enda ekki við því að búast að umfjöllun atvinnuveganefndar myndi draga skýrar fram hvert raforkuverðið gæti orðið né hver gæti orðið kostnaður við strenginn. Þau mikilvægu atriði verða ekki skýrari með vangaveltum í þinginu; til þess þarf beinar viðræður við bresk stjórnvöld og nánari athugun fagaðila á verkefninu.

Það er vissulega svo að sæstrengur af þessu tagi til Bretlands (eða annars lands) er nokkuð stórt pólitískt mál. Þess vegna er að sumu leiti eðlilegt að iðnaðarráðherra hafi viljað fara sér hægt í málinu og ekki fara þar fram úr vilja Alþingis. En það hefði tvímælalaust verið mun gagnlegra fyrir þingið að hafa meiri upplýsingar um málið. Með hliðsjón af þessu og ofangreindum ábendingum sendiherrans í London ætti að vera augljóst að það hefði verið skynsamlegast að viðhalda viðræðuferlinu við DECC. 

Beðið er eftir afstöðu ríkisstjórnarinnar

Sú ákvörðun iðnaðarráðherra að bíða með viðræður við DECC þar til eftir umfjöllun atvinnuveganefndar Alþingis varð til þess að viðræður milli breskra og íslenskra stjórnvalda um sæstrengsmálið hafa legið niðri. Það var svo nú í mars a þessu ári (2014) að íslenski iðnaðarráðherrann átti fund með breska orkumálaráðherranum í London. Á þeim fundi gerði iðnaðarráðherra grein fyrir umfjöllun Alþingis um skýrslu ráðgjafarhópsins og tillögum þingsins um framhald þeirrar vinnu. Engar frekari viðræður munu hafa verið ákveðnar.

Í áliti sínu lagði atvinnuveganefnd Alþingis það til við iðnaðarráðherra að ráðherrann ynni áfram að málinu. Nefndin tiltók ýmsa óvissuþætti sem þurfi að huga að. Það er reyndar augljóst að stærstu óvissuþættirnir munu ekki skýrast nema með ítarlegri viðræðum við bresk stjórnvöld og eftir atvikum við bresk fyrirtæki eins og National Grid (breska landsnetið). Samkvæmt upplýsingum frá iðnaðarráðuneytinu er nú verið að yfirfara umræddar tillögur atvinnuveganefndar í ráðuneytinu og ræða hvernig hægt sé að vinna þær áfram. Ráðuneytið hefur einnig upplýst að engin ákvörðun um framhald málsins verði þó tekin fyrr en málið hefur verið rætt í ríkisstjórn.

Mjög fróðlegt verður að sjá hvernig málið mun þróast af hálfu ríkisstjórnarinnar og íslenskra stjórnvalda. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að þetta mál snýst ekki bara um kapal eða mögulega raforkusölu til Bretlands. Þetta snýst líka um það að þeir fjármunir sem Bretar verja til orkustefnunnar eru takmarkaðir og þar á bæ eru stjórnvöld á fullu í að forgangsraða verkefnum.

Það eitt að mögulegur kapall milli Íslands og Bretlands kæmist ofarlega á dagsrá hjá DECC myndi samstundis geta haft ýmis jákvæð áhrif fyrir íslenska orkugeirann. Slík forgangsröðun myndi t.d. geta styrkt samningsstöðu Landsvirkjunar umtalsvert í viðræðum við stóriðjuna hér. Og veitir ekki af; í viðskiptaumhverfi þar sem um 75% allrar raforkunnar sem framleidd er í landinu fer til þriggja álfyrirtækja.

Hvarvetna um hinn vestræna heim þrífst áliðnaðurinn á lágu raforkuverði. Það getur haft mikla þýðingu þegar stórum raforkuframleiðanda eins og Íslandi (sem framleiðir langmesta raforku í heimi m.v. fólksfjölda) býðst tækifæri til alvöru viðræðna við nýjan mögulegan raforkukaupanda sem myndi að öllum líkindum bjóða miklu hærra verð fyrir raforkuna. Ríkisstjórn Íslands hlýtur að átta sig á hversu þýðingarmikið þetta tækifæri á raforkukapli milli Íslands og Bretlands gæti verið.

Það er hagsmunamál Íslands að viðræður við Breta fari á fullt

Það hefur nokkuð lengi verið ljóst hvað atriði það eru sem mikilvægast er að ræða við bresk stjórnvöld í tengslum við mögulegan sæstreng. Og nákvæmlega ekkert því til fyrirstöðu að byrjað hefði verið að ræða það mál strax sumarið 2013. Núna skiptir þó öllu hvernig haldið verður á sæstrengmálinu héðan í frá.

Þarna er um að ræða gífurlega fjárhagslega hagsmuni fyrir bæði íslensku orkufyrirtækin og íslenska ríkið og þar með þjóðina alla. Hreinar viðbótartekjur Landsvirkjunar og annarra íslenskra orkufyrirtækja af sæstreng gætu numið mörgum tugum milljarða ISK á ári hverju. Og það allt í erlendum gjaldeyri - til handa landi þar sem fyrirsjáanlegt er „að viðskiptaafgangur á næstu árum verði ekki nægur til að standa undir samningsbundnum afborgunum erlendra lána, hvað þá að hleypa út krónueignum erlendra aðila“, svo vitnað sé í stjórnendur Seðlabanka Íslands.

Með samningum um raforkusölu til Bretlands myndi samstundis verða mikil bót á gjaldeyrisjöfnuði landsins til framtíðar. Auk þess sem orkufyrirtækin okkar myndu sjá fram á mikinn og stóraukinn hagnað, sem myndu skapa ríkissjóði nýjar og auknar skatttekjur, auk arðgreiðslna til hins opinbera frá orkufyrirtækjum sínum. Það hlýtur því að vera þjóðarhagur að ekki verði óþarfa tafir á viðræðum við bresk stjórnvöld um orkusamstarf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband