Draumórar yfirtóku veruleikann í álbransanum

Í gær fór fram aðalfundur Samáls. Þar flutti m.a. Kelly nokkur Driscoll frá ráðgjafa- og greiningafyrirtækinu CRU erindi um horfurnar á álmarkaði. Í hnotskurn spáir Driscoll því að áliðnaðurinn eigi enn eftir að upplifa nokkur erfið ár uns þokkalegt jafnvægi kemst á framleiðslu og eftirspurn á álmarkaði. Og að lítill sem enginn hvati verði til að reisa ný álver utan Kína fyrr en í fyrsta lagi 2017 eða 2018.

Það er öllum kunnugt um þau vandræði sem áliðnaðurinn hefur verið í undanfarin fimm ár eða svo. Nú virðast ýmsir farnir að vera bjartsýnir um að lát sé að verða á offramleiðslunni og framundan sé betri tíð með blóm í haga. Í reynd er þó afar óvíst hvort batinn á álmörkuðum verði jafn hraður eins og CRU spáir. Nýlega kom t.d. fram sú skoðun hjá öðru ráðgjafafyrirtæki, Wood Mackenzie, að álbirgðir séu ennþá að aukast og að álframleiðendum utan Kína kunni að standa veruleg ógn af álútflutningi frá Kína.

Að auki eru upplýsingar um álbirgðir í Kína og víðar í heiminum svo óáreiðanlegar að forsendurnar fyrir spám um bata í áliðnaði eru í reynd byggðar á sandi. Hér verður athyglinni beint að því hversu ónákvæmar spár af þessu tagi geta verið og þeirri miklu óvissu og áhættu sem er farin að einkenna álmarkaði - nú þegar Kína er farið að framleiða helming alls áls í heiminum og getur þar með haft ófyrirséð áhrif á álframboð og álverð.

Framsetning CRU var ansið einföld 

Það var eftirtektarvert að í umræddri spá CRU, sem kynnt var á fundi Samáls, var einungis sett fram ein sviðsmynd. Rétt eins og þróunin í áliðnaðurinn sé afar fyrirsjáanleg. Svo er auðvitað ekki og því hefði verið áhugavert og mikilvægt að sjá mismunandi sviðsmyndir. Sem m.a. byggðu á mismunandi forsendum um þróun hagvaxtar í heiminum.

Spá Driscoll virtist byggja á nokkuð bjartsýnum forsendum. Hann vék t.d. ekki orði að þeim möguleika að offramleiðsla af áli í Kína kann mögulega að leiða til aukins útflutnings á áli þaðan. Eða jafnvel ennþá frekar til aukins útflutnings á álafurðum frá Kína, en það er þróun sem nýlega er farið að bera á. Framhaldið þarna er líklegt til að hafa víðtæk áhrif á álmarkaði um allan heim. Í þessu sambandi vaknar sú spurning hvort CRU sé enn og aftur að vanmeta áhrif Kína á álframboð - og um leið ofmeta horfurnar fyrir vestræna áliðnaðinn?

Misheppnuð spá CRU á uppgangstímunum 2006

Fyrir nánast sléttum átta árum - vorið 2006 - kom út skýrsla CRU sem unnin var fyrir eitt af stóru álfyrirtækjunum og fjallaði um horfur í áliðnaði. Niðurstaða CRU í þeirri spá var sú að næstu 5-10 árin (þ.e. á tímabilinu 2006-2011/2016) yrðu markaðsaðstæður mjög hagstæðar álframleiðendum. Einungis tveimur til þremur árum síðar var þessi framtíðarsýn CRU hrunin. Áliðnaðurinn einkenndist af offjárfestingu og offramleiðslu, taprekstur var orðinn útbreiddur og mikil þörf á að dregið yrði úr framleiðslu. Offramleiðslan hefur reynst viðvarandi, álrisinn Rusal er á barmi greiðsluþrots og nokkrum álverum hefur verið lokað.

Spá CRU frá 2006 dró sem sagt upp alltof bjartsýna mynd af áliðnaðinum. Undanfarin misseri og ár hafa mörg vestrænu álfyrirtækin leitað logandi ljósi að leiðum til að hagræða í rekstri sínum og jafnvel loka álverum. Þetta er allt önnur staða en CRU hafði spáð. Og sýnir okkur vel hversu varlega ber að taka slíkum spám og skoða fleiri sviðsmyndir.

Þegar spá CRU leit dagsins ljós vorið 2006 voru vissulega spennandi tímar á álmörkuðum. Á einu ári hafði álverð (LME) hækkað úr um 1.800 USD í u.þ.b. 2.800 USD tonnið. Og CRU taldi ekkert benda til annars en að sívaxandi eftirspurn frá Kína héldi áfram og að uppgangurinn í Kína myndi veita vestrænum álfyrirtækjum mikil tækifæri og styðja við hátt álverð. Reyndin varð þó sú að framtíð áliðnaðar næstu árin var engan veginn jafn björt eins og CRU spáði.

CRU vanmat Kína illilega

Það sem er athyglisverðast við umrædda spá CRU frá 2006 var afstaða fyrirtækisins til kínverska áliðnaðarins. Á þessum tíma var öllum orðinn efnahagsuppgangurinn í Kína ljós og hröð uppbygging áliðnaðar þar. Engu að síður kynnti CRU þá skoðun að uppbygging álvera í Kína væri senn komin á endastöð og að Kína myndi áfram þurfa að flytja mikið inn af áli.

Rök CRU voru þau að kínverski áliðnaðurinn væri ekki nægjanlega hagkvæmur til að geta fullnægt hratt vaxandi innlendri eftirspurn. Óhagkvæmnin myndi leiða til þess að senn færi að hægja á uppbyggingu álvera í Kína og því væru tækifæri fyrir vestrænan áliðnað að framleiða og selja mikið ál til Kína.

Þetta eru svipuð sjónarmið eins og lágu að baki þeirri ákvörðun Rio Tinto að kaupa Alcan árið 2007 - á verði sem reyndist alltof hátt. Það var að vísu rétt hjá hjá bæði CRU og Rio Tinto að Kína gæti ekki framleitt ál nema með miklum tilkostnaði. En sú hagfræði reyndist litlu skipta, enda er Kína ekki lýðræðislegt markaðshagkerfi og afskipti stjórnvalda af bæði orku- og áliðnaði eru gífurleg. Kína byggði upp sinn eigin áliðnað og það með ógnarhraða. Þar með hrundu forsendurnar fyrir umræddri framtíðarsýn CRU og Rio Tinto. Rio Tinto þurfti að afskrifa um 25 milljarða USD (!) vegna kaupanna á Straumsvík og öðrum álverum Alcan. Og áliðnaðurinn allur seig inn í kreppu. 

Staðan núna er afar tvísýn

CRU og fleiri fyrirtæki telja sig nú sjá ljósið við enda ganganna og að héðan í frá muni eftirspurn eftir áli vaxa svo hratt að álverð (LME) taki að hækka. Enn sem komið er virðist þetta sjónarmið þó fremur byggja á óskhyggju en staðreyndum. Önnur ráðgjafafyrirtæki vara ennþá við því að ál geti tekið enn eina dýfuna og botninum sé því enn ekki náð.

Nú er svo komið að stærsta álfyrirtæki heimsins utan Kína - álrisinn Rusal - á í miklum vandræðum og rússneski fjármálaráðherrann Anton Siluanov talar opinskátt um það að rússneska ríkið kunni að þurfa að bjarga fyrirtækinu. Í Bretland fékkst nýverið áfrýjunarleyfi í dómsmáli þar sem reynt er að ná fram breytingum á reglum álmarkaðarins (LME) í því skyni að stytta afhendingartíma á áli úr birgðageymslum fyrirtækja eins og Goldman Sachs og Glencore. Í Bandaríkjunum standa yfir málaferli gegn þessum sömu fyrirtækjum, sem ásamt fleirum eru sökuð um að hafa brotið alvarlega gegn samkeppnisreglum með því að misnota yfirburðastöðu sína á álmarkaði.

Draumórar Rio Tinto 

Það eru því vægast sagt blikur á lofti í áliðnaðinum. Og í besta falli tvísýnt að bati sé þar innan seilingar. Í þessu sambandi eru athyglisverð þau rök sem forstjóri Rio Tinto Alcan, Sam Walsh, setti nýverið fram í viðtali þar sem hann ræddi (að sínu mati) bjartar framtíðarhorfur áliðnaðar. Rökin hjá Sam Walsh voru nefnilega þau að kínversku millistéttinni sé að fjölga svo hratt og að hún þurfi þvílík ógrynni af heimilistækjum og rafmagnstólum, að brátt muni kínversku kolaorkuverin í NV-Kína sjá hag sinn í því að hætta að selja raforkuna til álvera og fremur selja hana austur á bóginn til stórborganna. Og þá minnki álframleiðsla og álframboð í Kína og allt verði gott á ný í álbransanum.

Þetta hlýtur að mega kallast nokkuð sérkennileg draumsýn hjá Walsh. Því jafnvel þó svo þetta kannski gerist í framtíðinni mun þessi þróun Kína taka marga áratugi. Í tengslum við þetta er vert að hafa í huga að Rio Tinto hefur gengið afleitlega að losa sig við álver sem fyrirtækið ætlaði að selja. Er þessi málflutningur Walsh kannski dæmi um að áhyggjurnar í áliðnaðinum séu sumstaðar orðnar þvílíkar að menn grípi hvert hálmstrá til að reyna að tala hlutabréfaverðið sitt upp?

Íslensk stjórnvöld virðast á réttri leið

Í gær fór ekki bara fram ársfundur Samáls, heldur einnig ársfundur Landsvirkjunar. Þar voru flutt greinargóð og áhugaverð erindi og einnig var ávarp fjármálaráðherra athyglisvert. Augu stjórnmálamanna hér virðast loksins vera að opnast fyrir því að kannski sé alls ekki skynsamlegt að við seljum meiri raforku til álvera en orðið er. Og leitum fremur leiða til að fá kaupendur sem treysta sér til að greiða hærra verð fyrir raforkuna.

Þessi auðlind okkar er í reynd af skornum skammti og geysilega áríðandi að arðsemi af nýtingu hennar aukist umtalsvert. Skilningur virðist vera að aukast á því að þar kynni sæstrengur milli Íslands og Evrópu að vera eitt allra besta tækifærið. Eftir að iðnaðarráðherra tafði viðræður við bresk stjórnvöld um sæstrengsmálið í hartnær ár var gott að merkja áhugann í orðum fjármálaráðherra.

Hugmyndir um að selja hlut í Landsvirkjun núna til einkaaðila kunna þó að vera vandasamar og jafnvel varasamar í framkvæmd. Því gangi áætlanir um sæstreng og stóraukna arðsemi Landsvirkjunar eftir á næstu árum, er hætt við að sala núna myndi ekki miðast við þá hækkandi arðsemi fyrirtækisins. Og þar með yrði verðið nú óhagstætt seljandanum (ríkinu). Ákvörðun um sölu á hlut í Landsvirkjun hlýtur því að bíða þar til skýrari upplýsingar liggja fyrir um hvort næsti virkilega stóri viðskiptavinur fyrirtækisins verði t.a.m. enn eitt álverið (sic) eða sæstrengur. Ef af sæstrengsverkefninu verður má aftur á móti vel hugsa sér að t.d. lífeyrissjóðir komi þar að. Slíkt kynni að vera skynsamleg ráðstöfun; víða um heim taka lífeyrissjóðir þátt í verkefnum af því tagi.

Samantekt 

  • Á aðalfundi Samáls var kynnt sú sýn CRU að álverð hafi náð botni og álmarkaðir verði komnir í jafnvægi eftir 3-4 ár. Það kann að ganga eftir, en óvissan er mjög mikil og sum greiningafyrirtæki eru ekki jafn bjartsýn.
  • Reynslan sýnir að CRU hættir til að vera of bjartsýnt fyrir hönd áliðnaðarins. Nýleg ummæli forstjóra Rio Tinto benda til þess að vonir um betri horfur í áliðnaði byggi á veikum grunni.
  • Mikilvægt er að Landsvirkjun og önnur íslensk orkufyrirtæki dragi úr áhættu sinni. Þess vegna væri óskynsamlegt að hér rísi enn eitt álver.
  • Íslensk stjórnvöld virðast vera að átta sig á nauðsyn þess að auka arðsemi í raforkuframleiðslunni á Íslandi. Og að þar sé rafstrengur milli Íslands og Evrópu einhver áhugaverðasti möguleikinn. Áhugavert gæti verið fyrir íslenska lífeyrissjóði að koma að því verkefni.
  • Ekki er skynsamlegt að selja hlut í Landsvirkjun að svo stöddu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband