Vannýttir eiginleikar íslenska vatnsaflsins

Meðal efnis í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmála er áhugaverð grein þar sem útskýrt er hvernig íslenska orkan býr yfir mjög sérstökum eiginleika, sem gerir hana afar eftirsótta og gæti skapað okkur áður óþekkt viðskiptatækifæri. Höfundur umræddrar greinar er Björgvin Skúli Sigurðsson, sem er með doktorspróf í verkfræði frá Stanfordháskóla í Bandaríkjunum og gegnir nú starfi framkvæmdastjóra markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar.

Í grein Björgvins er farið yfir sæstrengs­málið „út frá því viðskiptatækifæri sem aðstæður erlendis hafa skapað“ og er markmið greinarinnar „að fræða lesendur um þróun raforkumála í Evrópu og ástæður þess að Bretar horfa jafn jákvæðum augum til sæstrengs og raun ber vitni“. Í greininni er athyglinni sérstaklega beint að þeim tækifærum sem felast í sveigjanleika vatnsaflsins, enda skrifar Björgvin að þar liggi sæstrengstækifærið.

Hér verður fjallað um þetta atriði með hliðsjón af grein Björgvins, sem varpar vel ljósi á þessa sérstöðu vatnsaflsins og þau tækifæri sem í því felast. Ég mun ekki endursegja grein Björgvins, en álít fullt tilefni til að fjallað sé um þetta mál. Eftirfarandi texti endurspeglar því mínar skoðanir og við mig að sakast ef lesendur eru ósáttir við eitthvað sem þar kemur fram.

Aðgangur að sveigjanlegri raforku (vatnsafli eða jarðgasi) er afar mikilvægur

Í flestum vestrænum löndum sveiflast eftirspurn eftir raforku verulega yfir sólarhringinn. Notkunin er almennt mest yfir daginn, en minni á næturnar. Að auki geta orðið verulegar og snöggar sveiflur í raforkunotkun með litlum fyrirvara (einkum yfir daginn; raforkunotkunin í sumum löndum getur t.d. breyst mikið og snögglega í lok vinsælla sjónvarpsútsendinga). Hér á landi þekkjum við lítt til sveiflna af þessu tagi, enda einkennist íslenski raforkugeirinn fyrst og fremst af framleiðslu fyrir stóriðju og einungis mjög lítill hluti af raforkunni nýttur af almenningi og venjulegum fyrirtækjum.

Umræddar sveiflur í raforkueftirspurn eru oft lítt fyrirsjáanlegar. Þess vegna þurfa flestar þjóðir Evrópu að eiga greiðan aðgang að raforkugjöfum sem bjóða upp á mjög sveigjanlega og stýranlega framleiðslu. En það eru alls ekki allir orkugjafar sem bjóða upp á möguleikann að auka eða draga hratt úr raforkuframleiðslunni. Þarna nýtur vatnsafl með miðlunarlónum algerrar sérstöðu. Einnig er unnt að auka eða minnka framleiðslu gasorkuvera mjög skjótt.

Viðbragðstími kolaorkuvera er aftur á móti mun lengri og það á ennþá frekar við um kjarnorkuverin. Vindorku- og sólarorkuver eru svo til gagnlaus í þessu sambandi, enda eru þau háð duttlungum vinds og sólar á hverjum tíma. Það er reyndar svo að með aukinni notkun vind- og sólarorku víða í Evrópu og annar staðar í heiminum hefur orðið ennþá vandasamara að meta aflþörfina hverju sinni fram í tímann. Þess vegna hefur þörfin fyrir sveigjanlega og stýranlega raforkuframleiðslu orðið sífellt meiri.

Stýranleg endurnýjanleg raforka er geysilega verðmæt

Það er því svo að þegar eftirspurn eftir raforku breytist umtalsvert á skömmum tíma, eru það fyrst og fremst vatnsaflsvirkjanirnar og gasorkuverin sem koma til skjalanna. Þessi orkuver eru í því hlutverki að mæta aukinni raforkueftirspurn með aukinni framleiðslu og draga úr framleiðslu þegar eftirspurnin minnkar.

Að sveigjanleiki vatnsaflsvirkjana og/eða gasorkuvera sé nýttur með þessum hætti kemur ekki til af tómri skyldurækni rekstraraðilanna. Heldur er það svo að snöggar breytingar í eftirspurn eftir raforku valda óhjákvæmilega verðsveiflum og það eru fyrst og fremst umræddir orkugjafar sem geta nýtt sér þær verðsveiflur til að auka og hámarka tekjur sínar. Það er þó tvímælalaust vatnsaflið sem er bæði sveigjanlegasti og hagkvæmasti orkugjafinn. Miðlunarlónin gera jú kleift að stýra framleiðslunni mjög nákvæmlega - og þar með auka hana eða minnka með litlum sem engum fyrirvara í samræmi við verðbreytingar á raforkumarkaði.

Þannig geta vatnsorkuver nýtt sér verðsveiflur á raforkumarkaði til að hámarka tekjur sínar og hagnað. Þessi eiginleiki vatnsaflsvirkjana skapar þeim mikla sérstöðu og veldur því að þetta er sá orkugjafi sem skilað getur hæstu arðseminni. Þar að auki hefur vatnsaflið þann kost umfram jarðgasið að vera endurnýjanleg auðlind og án þeirrar kolefnislosunar sem gasbruni óhjákvæmilega veldur. Allt hjálpar þetta til að auka verðmæti vatnsaflsins - ef virkjunin á aðgang að hefðbundnum fjölbreyttum markaði.

Vatnsaflið býður upp á eðalvöru og það hafa Norðmenn nýtt sér

Til að eiga betri aðgang að sveigjanlegri raforku eru dæmi um að vatni sé beinlínis dælt upp í uppistöðulón. Þetta er t.d. vel þekkt í Austurríki og Sviss og einnig í Bretlandi, eins og ágætlega er lýst í grein Björgvins. Þó svo dælingin kalli á mikla orku er þetta talinn hagkvæmur kostur, því dælingin á sér fyrst og fremst stað á næturnar þegar raforkuverð er lágt en vatnið er einkum nýtt til raforkuframleiðslu þegar verðið er hátt.

Svona dæluvirkjanir eru gott dæmi um það hvernig vatnsaflið býður upp á bestu tækifærin til að vera í hlutverki hins sveigjanlega raforkuframboðs. Um leið nýtur vatnsaflið þess að geta nýtt sér snöggar verðbreytingar á raforkumarkaði og er því sá orkugjafi sem gefur bestu arðsemismöguleikana - að því gefnu að aðgangur sé að hefðbundnum vestrænum raforkumarkaði í stað þess að vera í aflokuðu stóriðju-dómínerandi raforkukerfi eins og er hér á landi.

Það er einmitt umræddur sveigjanleiki vatnsaflsins sem hefur stóraukið verðmæti norska vatnsaflsins. Lengsti rafstrengur heimsins neðansjávar í dag er NorNed strengurinn milli Noregs og Hollands. Og nú er í undirbúningi að leggja streng milli Noregs og Bretlands og fleiri strengi milli Noregs og meginlands Evrópu. Allt er þetta til marks um hversu geysilega arðsamt það er fyrir vatnsaflsríki að eiga aðgang að raforkumörkuðum þar sem sveigjanleg raforka er í hlutverki einstaklega verðmætrar tegundar af raforku. Í þessu sambandi mætti lýsa raforku frá vatnsafli sem eftirsóttustu eðalvörunni á orkumarkaðnum.

Íslendingar eru með eitthvert sveigjanlegasta raforkukerfi heims - en hafa ekki geta nýtt sér það

Óvíða er jafn hátt hlutfall vatnsafls í raforkuframleiðslunni eins og á Íslandi. Íslendingar hafa þó ekki ennþá getað nýtt sér umræddan sveigjanleika vatnsaflsins - sem er afar miður því þar liggur arðbærasti þáttur þessa einstaka orkugjafa.

Þess í stað gegna miðlunarlónin hér því meginhlutverki að vera raforkuforði tiltækur fyrir álver, sem þurfa og vilja eiga aðgang að ódýrri og öruggri raforku. Stóriðjan hér nýtir um 80% allrar raforkunnar og álverin þrjú nýta um 75% raforkunnar. Hin venjulegi innanlandsmarkaðir er sáralítill, eðli málsins samkvæmt, og tengingar/innviði skortir til að eiga aðgang að markaði þar sem varan yrði margfalt verðmætari. 

Afleiðingin er sú að verðmætið sem íslenska vatnsaflið gæti boðið upp á er víðs fjarri. Þar að auki veldur okkar aflokaða raforkukerfi því að íslenska vatnsorkan rennur oft án nokkurrar verðmætasköpunar úr fullum miðlunarlónum um yfirfall og út í sjó.

Stóra tækifærið gæti verið innan seilingar

Nú eru horfur á að tæknilega sé orðið mögulegt að leggja sæstreng til raforkuflutninga milli Íslands og Evrópu og það með hóflegum tilkostnaði. Þar með yrði unnt að nýta þann einstaka eiginleika vatnsaflsins sem felst í sveigjanleika þess til raforkuframleiðslu. Þar með væri unnt að skapa mjög sérstaka og verðmæta útflutningsvöru. Í tilviki Íslands gæti þar orðið um að ræða arðbærustu útflutningsvöru íslensku þjóðarinnar.

Í okkar tilviki er þetta ennþá áhugaverðara en fyrir Norðmenn, sökum þess að við búum hlutfallslega yfir ennþá meira vatnafli en þeir. Það er sennilega ekki ofsagt að áhugaleysi á sæstreng héðan til Evrópu jafnist í reynd á við ákvörðun um að vannýta mjög eina allra stærstu auðlind þjóðarinnar. Vonandi er ekki nokkur maður sem mun halda því fram að það borgi sig að eitt sveigjanlegasta raforkukerfi heims, hjá þjóð sem er hlutfallslega stærsti raforkuframleiðandi heims, verði viðhaldið sem aflokuðu - og hinn annars veðmæti sveigjanleiki þar með vísvitandi gerður verðlaus. 

Sæstrengur yrði hluti af mikilvægum og verðmætum innviðum

Hér hefur í hnotskurn verið lýst hvernig þjóðir vilja og þurfa að hafa góðan aðgang að sveigjanlegri og stýranlegri raforkuframleiðslu. Vegna þessa er mikil eftirspurn í Evrópu eftir tengingum við svæði sem eru rík af vatnsafli og jarðgasi og eru tryggir viðsemjendur. Þar eru norska vatnsaflið og norska jarðgasið bestu dæmin. Af sömu ástæðum er afar áhugavert fyrir lönd eins og t.d. Bretland að tengjast Íslandi með raforkustreng. Í þessu sambandi er líka vert að hafa í huga að sæstrengur milli Íslands og Evrópu væri hluti af mikilvægum innviðum samfélagsins hér, rétt eins og símatengingar og samgönguleiðir.

Sumir vilja meina að mestu skipti að orkulindirnar á Íslandi séu fullnýttar hér heima. Slík skoðun stenst bara ekki - ekki í hagkerfi sem hlutfallslega býr yfir svo miklum og orkulindum, sem hafa afar sérstaka verðmæta eiginleika sem þó ekki nýtast til verðmætasköpunar nema með tengingu við erlendan raforkumarkað. Við slíkar aðstæður er einfaldlega þjóðhagslega skynsamlegt að ein stærsta auðlind þjóðarinnar sé líka markaðssett og seld sem eftirsótt sérvara fremur en að vera bara arðlítil hrá- eða grófvara til kaupenda sem greiða lægsta verðið.

Lokaorð 

Það var áðurnefnd grein Björgvins Skúla Sigurðssonar í Þjóðmálum sem vakti hjá mér tilefni til að fjalla sérstaklega um þetta málefni. Og hvet ég lesendur þessa pistils til að lesa þá grein - og nýta sér þann fróðleik sem þar kemur fram til að móta sér skoðun á því álitamáli að leggja raforkustreng milli Íslands og Evrópu. Hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir okkur Íslendinga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband