Ísland og staðarval gagnavera

Fréttir liðinnar viku voru margar góðar. Meðal annars sú frétt að Ísland sé heppilegur staður fyrir gagnaver.

Phil Schneider um Ísland og gagnaver

Það var á föstudaginn var að fram fór opinn fundur á vegum Landsvirkjunar undir yfirskriftinni Gagnaver í leit að staðsetningu. Að afloknum markvissum inngangsorðum Björgvins Skúla Sigurðssonar frá Landsvirkjun, tók Phil Schneider við með efnismikla kynningu. Schneider  rekur ráðgjafafyrirtækið Schneider Stategies Consulting og er stjórnarmaður í Site Selectors Guild.

Schneider fjallaði þarna í ítarlegu máli um það hvernig staðarval fyrir gagnaver fer fram. Hann skipti erindi sínu í þrjá meginþættir. Í fyrsta lagi fjallaði hann um mikilvægustu almennu atriðin sem ræður staðarvali fyrirtækja á rekstrareiningum sínum. Í öðru lagi fjallaði Schneider sérstaklega um það hvernig þetta snýr að staðsetningu gagnavera. Í þriðja lagi fjallaði hann um þær áskoranir sem Ísland þarf að takast á við, til að ná góðum árangri í að laða að fleiri fjárfestingar í gagnaverum.

Þetta umfjöllunarefni skiptir geysimiklu máli. Gagnaverin greiða gott verð fyrir raforkuna. Og þetta er atvinnugrein sem er í mjög hröðum vexti víðast hvar um heiminn. En það er líka mikil samkeppni um að fá til sín gagnaver. Í því sambandi má t.d. minna á nýlegar fréttir um stórt gagnaver Apple í Danmörku. Afar mikilvægt er að Ísland nái að nýta sér þróunina í uppbyggingu gagnavera til að auka hér arðsemi í raforkusölunni - og um leið auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. 

Áhættuþættir oftast afgerandi en stundum byggðir á misskilningi

Í máli Phil Schneider kom fram að staðarval fyrirtækja byggi fyrst og fremst á þremur meginþáttum; að nálgast nýja viðskiptavini, að nálgast hæfileikafólk til starfa og að ná fram hagræðingu í rekstri. Það sé eðlilega misjafnt hvað það er sem einstök fyrirtæki leggja þarna mesta áherslu á. En að vönduð ákvörðun um staðsetningu fyrirtækja og rekstrareininga (staðarval) byggi á ítarlegu mati á öllum þeim þáttum sem þarna geta skipt máli.

Þar er áherslan, að sögn Schneider, oft fyrst og fremst á það að staðarvalið takmarki áhættu fyrirtækisins. Þess vegna geta áhættuþættir eins og t.d. náttúruvá og (ó)stöðugleiki lagaumhverfis skipt miklu, svo dæmi séu nefnd. Þar að auki sagði Schneider fyrirtæki oft hrapa að ályktunum í tengslum við áhættuþætti. Í því sambandi nefndi hann sem dæmi að land geti að ósekju haft ímynd í huga margra sem háskalegur staður (sbr. Ísland og eldgos). Vinna þurfi markvisst gegn slíkum röngum forsendur eða skakkri ímynd - og þar sé aðgengileg og nákvæm upplýsingagjöf geysilega mikilvæg.

Rekstrarumhverfið þarf að vera jákvætt og mannauður til staðar

Schneider nefndi það sérstaklega, að vegna gagnavera skipti þarna miklu að fyrir liggi aðgengilegar og skýrar upplýsingar um alla mikilvægustu þættina sem lúta að rekstri, áhættu o.s.frv. Og þá ekki síst upplýsingar um helstu grundvallaratriðin sem byrjað er á að líta til í undirbúningi staðarvals. Hvað rekstrarumhverfi fyrirtækjanna snertir, eru þetta t.d. upplýsingar um skattkerfi og orkuverð, svo og menntunar- og þekkingarstig fólks sem býr á svæðinu (sbr. tilvonandi starfsfólk).

Það er því afar mikilvægt að einfalt sé að finna skýrar og áreiðanlegar upplýsingar um það hvaða fyrirkomulag og reglur gilda um t.d. skatta og opinber gjöld. Okkur kann að þykja þetta ósköp einfalt og sjálfsagt. En ef erlent fyrirtæki rekur sig á vandkvæði við að finna slíkar upplýsingar eða þykir upplýsingarnar óljósar eða að ósamræmi sé í þeim, getur Ísland fljótt verið strikað af staðarvalslistanum. Möguleikar fyrirtækja fyrir staðarval eru oft fjölmargir og auðvelt að detta út af listanum - jafnvel af minnsta tilefni ef upplýsingar þykja ónógar eða óljósar.

Það þarf líka að vera fljótlegt og auðvelt að nálgast góðar upplýsingar um það hvort Ísland og/ eða einstök svæði á Íslandi búi yfir þeim mannauði sem viðkomandi fyrirtæki þarfnast. Og sömuleiðis upplýsingar sem segja skýrt til um það hvort eða hversu einfalt það er fyrir fyrirtækið að veita t.d. erlendu starfsfólki, sem starfar við aðrar rekstrareiningar viðkomandi fyrirtækis, tækifæri til að vinna við nýja einingu á Íslandi. Þetta getur skipt sérstaklega miklu máli í byrjun, þ.e. í tengslum við það þegar verið er að byggja upp atvinnustarfsemina hér á landi og koma henni af stað. Ef þarna virðast hindranir á veginum eða flókið er að átta sig á stöðunni, er viðkomandi staður oft fljótt strikaður út.

Aðgengilegar og traustar upplýsingar eru lykilatriði

Þarna er að mati Schneider algert lykilatriði að aðgengilegar, vandaðar og traustar upplýsingar séu til staðar. Í þessu sambandi lagði hann ríka áherslu á að nauðsynlegt sé að einföld leit á Netinu (einkum á leitarvél Google) skili slíkum upplýsingum. Og að þær leitarniðurstöður þurfi að koma mjög framarlega í leitinni. Að öðrum kosti sé viðkomandi staður - í þessu tilviki Ísland - mjög líklega strax búinn að missa af því tækifæri að vera skoðaður nánar vegna mögulegs staðarvals. Þetta er hin nýja veröld sem internetið hefur skapað og mótað. Góðar upplýsingar sem finnast án fyrirhafnar eru algert lykilatriði.

Ég ætla ekki að rekja nánar hér það sem fram kom í máli Schneider. En hvet lesendur, sem áhuga hafa á málinu, að gefa sér tíma til að hlusta og horfa vandlega á þetta klukkutímalanga áhugaverða erindi og þær umræður sem fylgdu í kjölfarið. Þar tóku þátt, auk Schneider, þeir Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar hjၠLandsvirkjun, Halldór Þorkelsson, framkvæmdastjóri hjၠPwC, Guðbrandur R. Sigurðsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs hjၠOpnum kerfum og Örn Orrason, yfirmaður sölu- og viðskiptaþróunar hjၠFarice. Sjá má fundinn í heild hér á Youtube-svæði Landsvirkjunar. Það er líka viðeigandi að vísa á umfjöllun Viðskiptablaðsins um fundinn.

Icelandic Energy Portal gegnir mikilvægu hlutverki

Í erindi sínu lagði Schneider sérstaka áherslu á mikilvægi þess að Ísland kynni sig með öflugum og vönduðum hætti; slíkt sé forsenda þess að ná að laða hér að gagnaver og aðrar atvinnugreinar og fjárfestingar. Hann nefndi sérstaklega mikilvægi þess að ávallt þurfa að vera til reiðu - með einfaldri leit á Google - skýrar og áreiðanlegar upplýsingar og staðreyndir. Þar sem greint er skýrlega frá þeim atriðum sem fyrirtækin (mögulegir fjárfestar) eru að skoða hverju sinni; í þessu tilviki gagnaver. Þarna þurfa og vilja fyrirtækin og fjárfestarnir eiga greiðan aðgang að góðum, nýjum og hnitmiðuðum upplýsingum. 

Mér þótti athyglisvert að í þessu sambandi vísaði Schneider sérstaklega í upplýsingaveituna Icelandic Energy Portal, sem ég einmitt stýri. Fyrir mig var þetta góð staðfesting á því að ég hef verið á réttri leið undanfarin misseri og ár við uppbyggingu á þessari öflugu upplýsingaveitu og gagnagrunni. Þar sem íslensk orkumál og fjárfestingar í verkefnum sem tengjast íslenskri orku eru í öndvegi. Enda er Icelandic Energy Portal nú orðin langmest sótta upplýsingaveitan um íslensk orkumál og er þar komin í afgerandi forystuhlutverk (og langt fam úr enskum upplýsingavef Íslandsstofu og sömuleiðis er Icelandic Energy Portal með miklu meiri umferð en upplýsingavefur Invest in Iceland um orkumál).

Áhugaverð og spennandi verkefni framundan

Það eru því áhugaverðir tímar hjá Icelandic Energy Portal. Þessi stafræna upplýsingaveita, sem sérhæfir sig í íslenskum orkumálefnum, er að verða sífellt mikilvægari heimild um íslenska orku, hvort sem er fyrir erlenda sérfræðinga eða fjölmiðla. Sbr. til dæmis tilvísanir á vef ABBCNNForbes og Le Monde og tugir þúsunda árlegra flettinga á vefsvæðinu, þar sem fólk frá öllum löndum heimsins nálgast upplýsingar um íslensk orkumál (mest frá Bandaríkjunum og löndum i vestanverðri Evrópu).

Í ljósi erindis Phil Schneider er spennandi að á næstu misserum er einmitt ætlunin að Icelandic Energy Portal leggi m.a. vaxandi áherslu á Ísland sem fjárfestingakost fyrir gagnaver. Icelandic Energy Portal er greinilega á réttri leið - og hyggst verða sífellt betri og mikilvægari þáttur í því að auka fjölbreytni og arðsemi í nýtingu á íslenskri orku. Þannig vil ég nýta þekkingu mína og samstarfsfólks til að skapa hér ný og fjölbreyttari tækifæri fyrir bæði fólk og fyrirtæki. Þetta eru áhugaverð og krefjandi verkefni, sem ég hef mikla ánægju af að sinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll og blessaður Ketill, ég skora á þig í ljósi þinnar þekkingar og reynslu að gera úttekt á því hvað gaganver eru skila af störfum vs stóriðja og upplýsa okkur hin um það, allavega höfum við mörg sem erum með menntun og þekkingu í upplýsingatækni efasemdir um að gagnaver séu að skila störfum sem kalla á sérfræðiþekkingu í einhverju mæli. 

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 7.6.2015 kl. 15:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband