Hydro Québec hækkar verð til álvera

„Hlutverk Samáls er að miðla almennum upplýsingum um íslenskan áliðnað.“

Þannig segir í grein eftir Pétur Blöndal, framkvæmdastóra Samáls (samtaka álframleiðenda á Íslandi). Þetta er verðugt hlutverk; að miðla almennum upplýsingum um íslenskan áliðnað. En því miður virðist hlutverk Samáls eitthvað hafa skolast til. Það er a.m.k. svo að þegar litið er til málflutnings framkvæmdastjórans hér á mbl.is undanfarið, virðist sem hlutverk Samáls sé þvert á móti að villa um fyrir íslenskum almenningi.

Rangar upplýsingar Samáls um orkuverð til álvera á Íslandi

Ekki er gott að segja hvort umræddur villandi málflutningur Samáls sé settur vísvitandi fram með þessum hætti eða að þarna sé einfaldlega um að ræða skort á þekkingu. En í þessu sambandi er vert að rifja upp að framkvæmdastjóri Samáls hefur ítrekað breitt út rangar upplýsingar um meðalverð á raforku til álvera á Íslandi.

Þar segist hann vera í góðri trú með því að vísa til trúnaðarupplýsinga frá CRU Group. En umræddar upplýsingar, sem framkvæmdastjóri Samáls hefur þarna vísað til frá CRU, eru svo augljóslega rangar að það virðist beinlínis einbeittur ásetningur hans að villa um fyrir lesendum og almenningi. Eins og ég hef áður útskýrt. 

Villandi upplýsingar Samáls um meðalverð raforku til Alcoa í Kanada

Annað dæmi um villandi upplýsingar frá Samáli eru nýleg skrif Péturs um meðalverð í nýjum orkusölusamningum við þrjú álver Alcoa í Kanada. Þar birtir Pétur upplýsingar sem gefa ranga eða afar bjagaða mynd af raunveruleikanum. Og vitnar aftur í CRU. Sem er auðvelt og þægilegt að fela sig á bak við. En hver sá sem kynnir sér umrædda samninga sér fljótt að verðmæti þeirra samninga er miklu meira fyrir raforkufyrirtækið Hydro Québec en Pétur lætur líta út fyrir.

Aukin arðsemiskrafa Hydro Québec

Í umræddum skrifum segir framkvæmdastjóri Samáls að raforkuverðið í þessum kanadísku samningum sé nálægt „28 til 31 USD eftir því við hvaða álverð er miðað“. Þetta er nokkuð lúmskt orðalag hjá Pétri, því hann tiltekur ekki hvaða álverð er þarna miðað við.

Það skal þó tekið fram að þegar miðað er við strípað orkuverð skv. umræddum þremur samningum, þá er þessi tala rétt hjá Pétri sem meðalorkuverð skv. samningunum - að því gefnu að miðað sé við álverð á fyrri hluta ársins 2015. En gallinn á framsetningu Péturs er sá að hann lætur alveg vera að nefna að samningarnir þrír hafa að geyma margvísleg önnur ákvæði. Sem gera þá í reynd miklu meira ívilnandi fyrir raforkusalann (Hydro Québec) heldur en ætla má af orkuverðinu einu saman.

Umrædd tilvísun Péturs til kanadísku samninganna við álverin þrjú er sem sagt fjarri því að gefa raunsanna mynd af umræddum orkusamningunum Hydro Québec við Alcoa. Þess vegna eru upplýsingar Samáls þarna enn og aftur villandi. Þetta hefði Pétur mátt sjá með því að kynna sér efni samninganna, í stað þess að vitna bara í þriðja aðila (CRU). Hið rétta er að með nýju raforkusamningunum við Alcoa, vegna álveranna þriggja, eykst arðsemi Hydro Québec af raforkusölunni til Alcoa. Langt umfram það sem Pétur gaf í skyn.

Ekki aðeins hækkaði meðalverðið á raforkunni til Alcoa umtalsvert, heldur var einnig samið um ýmis önnur atriði sem eykur arð Hydro Québec af samningunum. Niðurstaðan er sú að þegar upp er staðið munu samningarnir að meðaltali vafalítið skila Hydro Québec ámóta verði af raforkusölunni til Alcoa eins og Landsvirkjun nýtur með hæsta raforkuverðinu til álvers á Íslandi í dag (sem er álverið í Straumsvík).

Þagað um ívilnanir til handa raforkusalanum

Í umfjöllun sinni sleppti framkvæmdastjóri Samáls því - vísvitandi eða óafvitandi - að taka fram að í umræddum kanadískum samningum var ekki bara samið um sjálft raforkuverðið. Þarna var líka samið um önnur mikilvæg atriði, sem eru mjög ívilnandi fyrir raforkuframleiðandann; fylkisorkufyrirtækið Hydro Québec.

Í fyrsta lagi lét Pétur vera að nefna að umræddir orkusamningar fela í sér nokkuð víðtækar skerðingarheimildir til handa raforkuframleiðandanum yfir vetrartímann. Til að mæta slíkum skerðingum er líklegt að Alcoa þurfi annað hvort að draga úr framleiðslu eða að kaupa raforku annars staðar frá - á verði sem er almennt miklu hærra. Fyrir vikið eru samningarnir ekki jafn hagkvæmir Alcoa eins og ætla mætti af umfjöllun Péturs.

Í öðru lagi þá lét Pétur þess ógetið að mikilvægur hluti samninganna felst í áætlunum Alcoa um að fjárfesta fyrir 250 milljónir dollara í álverunum þremur. Samkvæmt Alcoa verður þeim fjármunum einkum varið til að auka framleiðslu á áli sem notað verði í bifreiðar. Þarna er um að ræða verulega nýfjárfestingu, sem er til þess fallin að draga sjálft orkuverðið niður. Eins og alþekkt er í samningum um raforkusölu til álvera. Það hefði framkvæmdastjóri Samáls átt að nefna.

Í þriðja lagi - og það sem skiptir hér alveg sérstaklega miklu máli - er að Pétur lét vera að nefna að í þessum samningunum Alcoa og Hydro Québec er kveðið á um kvöð á Alcoa um að afhenda Hydro Québec eignarhlut Alcoa í gríðarstórri vatnsaflsvirkjun. Þar er um að ræða samningsákvæði sem er geysilega mikils virði fyrir Hydro Québec. Og er því afgerandi þáttur um það hvaða verðmæti felast í þessum samningum fyrir raforkufyrirtækið. Það er með ólíkindum að framkvæmdastjóri Samáls skuli hafi þagað um þetta mikilvæga atriði.

Norðuráli mun ekki bjóðast lægra verð en um 35 USD/MWst að núvirði

Meðalverð á raforku til álvera í Kanada er vissulega lágt. En það skýrist af sögulegum og óvenjulegum ástæðum, sem má fyrst og fremst rekja til stórra og löngu uppgreiddra virkjana í eigu Rio Tinto Alcan. Þess vegna miðast engir nýir raforkusamningar við það hvaða meðalverð tíðkast til álvera almennt í Kanada.

Það kanadiska meðalverð á raforkunni hefur m.ö.o. nákvæmlega enga þýðingu þegar samið er um raforkusölu til álvera í dag. Og þess vegna er meðalverðið í nýjum samningum Hydro Québec við Alcoa óralangt umfram kanadíska meðalverðið. Og þegar þeir samningar eru skoðaðir sést að verðmæti þeirra fyrir Hydro Québec er í takti við það sem sjá má í samningi Landsvirkjunar við Rio Tinto Alcan vegna álversins í Straumsvík. 

Þessir nýlegu samningar þarna við Alcoa í Kanada eru þess vegna enn ein vísbending um það að ef nýr raforkusamningur verður gerður milli Norðuráls og Landsvirkjunar, þá er útilokað að Norðuráli bjóðist lægra verð en um 35 USD/MWst. Og jafnvel rök til þess að verðið verði eitthvað hærra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband