21.11.2014 | 10:20
Sprengisandslína í umhverfismat
Landsnet vinnur nú að undirbúningi að umhverfismati fyrir háspennulínu milli Norður- og Suðurlands. Þ.e. línu frá Þjórsár- og Tungnaársvæðinu um Sprengisand og norður í Bárðardal, sem tengist landsnetinu bæði sunnan heiða og norðan (fyrirhuguð tengivirki yrðu við Langöldu á Landmannaafrétti og við Eyjardalsá vestan Bárðardals). Hér verður athyglinni beint að þessum áætlunum, þ.e. forsendunum að baki raflínunni og þeim ólíku kostum sem koma til greina og loks stuttlega vikið að ferli umhverfismatsins. Þó svo þessi stutta umfjöllun sé engan veginn tæmandi um það ferli sem Sprengisandslína nú er í, gefur þetta lesendum vonandi vísbendingar um af hverju þessar framkvæmdir eru nú komnar til skoðunar og hvaða ferli er framundan.
Öflugra flutningskerfi
Eftirspurn eftir raforku á Íslandi og raforkuframleiðsla hér hefur vaxið gífurlega frá því núverandi hringtengda byggðalínan var reist á tímabilinu 1972-1984. Á uppbyggingartímabilinu u.þ.b. tvöfaldaðist raforkuframleiðslan og frá því hringtengingin varð að veruleika hefur raforkuframleiðslan fjórfaldast. Það er því kannski ekki að undra að á síðustu árum hafa komið upp ýmis vandamál í raforkukerfinu, eins og aukinn óstöðuleiki og flutningstakmarkanir. Slíkar truflanir geta komið sér illa fyrir fólk og fyrirtæki. Og einnig dregið úr áhuga á uppbyggingu nýrrar starfsemi, hvort sem eru t.d. gagnaver eða önnur þjónusta eða framleiðsla, sem þarf tryggan aðgang að raforku.
Einn helsti tilgangur þess að leggja nýja háspennulínu milli Suður- og Norðurlands er einmitt sá að bæta og efla raforkukerfi landsins; tryggja stöðugleika þess og auka öryggi raforkuafhendingar og gæði raforku. Um leið er verið að auka flutningsgetu raforkukerfisins. Umræddar framkvæmdir eru sem sagt bæði til að raforkukerfið geti betur sinnt núverandi eftirspurn og að það sé fært um að takast á við aukna raforkuflutninga sem fyrirsjáanlegir eru - eins og t.d. aukna rafvæðingu fiskiðjuvera og raforkuþörf vegna nýrra framkvæmda og atvinnuuppbyggingar víða um land á komandi árum og áratugum.
Grunnkerfið verði 220 kV
Í tengslum við áætlanir um uppbyggingu öflugra flutningskerfis hefur Landsnet áður lagt til þrjá möguleika eða mismunandi kosti, sem lýst er í tíu ára kerfisáætlun fyrirtækisins 2014-2023. Umrædd kerfisáætlun Landnets er m.a. byggð á forsendum sem fram koma í annarri vinnu stjórnvalda, en þar skiptir hvað mestu raforkuspá Orkuspárnefndar og ályktun Alþingis um Rammaáætlun.
Allir kostirnir þrír í kerfisáætluninni miða að því að byggja upp sterkari tengingar milli helstu orkuvinnslusvæðanna, að auka stöðugleika í raforkuflutningum og tryggja betur raforkuafhendingu. Í þessum áætlunum er lagt til grundvallar að til framtíðar verði meginflutningskerfið á a.m.k. 220 kV spennu. Í dag ráða háspennulínur flutningskerfisins hér á Íslandi víðast hvar einungis við 132 kV eða 66 kV. Öflugri háspennulínur, þ.e. 220 kV, eru enn sem komið er einungis að finna á suðvesturhluta landsins (þ.e. milli höfuðborgarsvæðisins og virkjananna á Þjórsár og Tungnaársvæðinu) og milli Fljótsdalsstöðvar (Kárahnjúkavirkjunar) og álversins á Reyðarfirði.
Af þeim þremur kostum sem til greina koma, skv. kerfisáætlun Landsnets, gera tveir þeirra ráð fyrir háspennulínu um Sprengisand (þriðji kosturinn er ný hringtenging). Það skref sem Landsnet er núna að gera er að skoða þessa kosti betur svo nálgast megi ákvörðun um hvernig styrkja beri raforkukerfið í samræmi við t.d. raforkuspá og Rammaáætlun. Það er jú augljóst að við uppbyggingu raforkuflutningskerfisins hér á Íslandi, sem og annars staðar, þarf að taka framsýnar ákvarðanir. Og nú er sem sagt komið að því að skoða nánar áhrif af tengingu um Sprengisand og þess vegna eru nú komin fram drög að matsáætlun um Sprengisandslínu.
Fjórir valkostir Sprengisandslínu koma til skoðunar
Samkvæmt umræddum drögum að matsáætlun er gert ráð fyrir að í umhverfismatinu verði fjórir valkostir Sprengisandslínunnar bornir saman (fimmti valkosturinn er s.k. núllkostur, þ.e. engin lína lögð). Lögð er sérstök áhersla á að takmarka sjónræn áhrif línunnar frá Sprengisandsvegi, enda er svæðið að miklu leiti ósnortið (að frátöldum vegslóðunum). Allir umræddir fjórir valkostir eru merktir á kortum í drögum Landsnets að matsáætluninni og eru aðgengileg á netinu.
Af þeim fjórum valkostum um háspennulínu sem skoðaðir verða er einn tilgreindur sem aðalvalkostur (heildarlengd hans er 192 km). Athyglisvert er að einn af hinum valkostunum miðast við að jarðstrengur verði á hluta leiðarinnar. Þarna munu því væntanlega fást fróðlegar upplýsingar um bæði kostnað og rask vegna lagningar háspennujarðstrengja.
Samhliða þessari vinnu mun Vegagerðin skoða kosti fyrir endurgerð Sprengisandsvegar. Enda eru slóða- eða vegaframkvæmdir óhjákvæmilegur fylgifiskur þess þegar háspennulínur eru lagðar. Að auki er vert að nefna að í gildandi svæðisskipulagi fyrir miðhálendi Íslands er gert ráð fyrir bæði raflínu og vegi yfir Sprengisand.
Fyrstu skrefin í nokkuð löngu ferli
Ekki liggur ennþá fyrir ákvörðun um það hvort af þessum framkvæmdum verður um Sprengisand. Ferlið sem nú er komið í gang er undirbúningsferli að umhverfismati vegna línunnar (og vegagerðarinnar). Í fyrstu beinist vinnan að gerð matsáætlunarinnar. Hún er fremur almenn verklýsing sem nýtist bæði framkvæmdaraðila, Skipulagsstofnun, umsagnaraðilum og almenningi til að vinna eftir og átta sig á framkvæmdinni.
Í þeim drögum eða tillögu að matsáætlun sem nú liggur fyrir er að finna lýsingu á fyrirhuguðum framkvæmdum, valkostum og framkvæmdasvæði. Þarna kemur fram hvaða álitamál verða tekin til skoðunar og tilgreint hvaða gögn eru fyrir hendi sem nýtt verða við matsvinnuna og hvaða gagnaöflun er yfirstandandi eða fyrirhuguð. Gerð er grein fyrir því hvernig staðið verður að mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna og hvaða umhverfisþættir kunni að verða fyrir áhrifum, auk ýmissa annarra atriða.
Í framhaldinu kemur svo að því að vinna við sjálft matið á umhverfisáhrifum framkvæmdanna fer fram. Þ.m.t. er nánari könnun á mismunandi kostum um leiðarval og útfærslur. Þá verður skoðað sérstaklega og ítarlega hvaða áhrif mismunandi valkostir hafa á landslag, náttúrufar, minjar og samfélag. Sjálfar framkvæmdirnar, þegar að þeim kæmi, eru svo háðar ýmsum leyfum, m.a. á grundvelli raforkulaga og skipulagslaga.
Matsáætlun, frummatsskýrsla og skýrsla um umhverfismat
Matsáætlunin er háð samþykki Skipulagsstofnunar þar sem m.a. verður fjallað um athugasemdir sem kunna að hafa verið gerðar við drögin. Þegar samþykki Skipulagsstofnunar liggur fyrir - og þar með matsáætlunin í endanlegri mynd - er hún e.k. vegvísir um hvað fjalla beri um og hvaða upplýsingar skuli koma fram í s.k. frummatsskýrslu vegna mats á´umhverfisáhrifum.
Í frummatsskýrslunni er fjallað nánar um framkvæmdirnar, um starfsemi sem þeim fylgja, um valkosti og áhrif á umhverfið. Sú skýrsla fer einnig til Skipulagsstofnunar og þá gefst almenningi aftur kostur á athugasemdum. Frummatsskýrslan er undanfari hinnar eiginlegu skýrslu um mat á umhverfisáhrifum (matsskýrslan), en Skipulagsstofnun þarf að fara yfir allar athugasemdir og gefa álit sitt áður en slíkri skýrslu er lokið.
Ekki reynir á útgáfu framkvæmdaleyfis fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna liggur fyrir. Kærumeðferð og umfjöllun úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála getur dregið ferlið á langinn. Hvort Sprengisandslína verður lögð á eftir að koma í ljós. Mögulegt er að þess í stað komi öflug ný háspennulína sem hringtenging umhverfis landið. Þessi mál eru í sífelldri skoðun, enda eru öruggir raforkuflutningar meðal mikilvægustu innviða samfélaga.
Athugasemdir
vandamálið í dag er vegna þess að landsnet þurfti fyrirgreiðslu hjá lánastofnunum töldu ráðann skinsamlegt að láta dýrasta hluta raforkukerfisinsvera eftir hjá rarik en lét þá ekki fá fjármagn til að standa undir framhvæmdumþví gétum við varla talað um hríngteingingu. lína yfir spreingisand er forsenda fyrir sæstreing án spreingisandslínu verður varla lagður sæstreingur
kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 21.11.2014 kl. 14:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.