Þekking og vanþekking í batnandi veröld

Heimurinn batnandi fer. Og það þó svo margar fréttastofur veraldarinnar kunni að láta ykkur finnast annað. Og þó svo æðstu hershöfðingjar heimsins reyni að láta ykkur finnast annað.

Það er staðreynd að heimurinn fer batnandi

Sá sem kynnir sér málið kemst brátt að því að nánast sama hvert litið er þá hefur ástand heimsins farið sífellt batnandi síðustu árin og áratugina. Hlutfall sveltandi, stríðshrjáðra og fórnarlamba náttúruhamfara hefur t.d. minnkað jafn og þétt. Þetta er þróunin - þó svo vissulega komi bakslag af og til eins og núverandi hryllileg átök í Sýrland bera vott um.

Öll þekkjum við að velmegun í heiminum er misskipt. Og víða um heim er finna dæmi um afar erfiðar aðstæður hjá fólki og jafnvel skelfilegar. Það er engu að síður svo að hin raunverulega en vissulega ópersónulega tölfræði talar sínu máli. Ástand heimsins fer batnandi. Og mun vafalítið fara batnandi áfram. Svo lengi sem jarðarbúar sinna áfram þeim viðfangsefnum sem skipta okkur mestu máli. Þar eru menntamál og heilbrigðismál líklega mikilvægust.

Þó svo ástand heimsins fari batnandi erum við auðvitað ekki laus við ógnirnar. Ógnir eins og möguleikann á stórfelldri styrjöld eða geysilegum náttúruhamförum. Slíkar ógnir hafa alltaf verið til staðar og munu vera það áfram. En staðreyndin er sú að síðustu áratugina hefur dregið úr stríðsátökum, dregið úr glæpum og dregið úr mannskaða af völdum náttúruhamfara (hér er vel að merkja miðað við þróunina yfir lengra tímabil en fáein ár, en ekki verið að bera saman einstök ár). Og þrátt fyrir fjármálakreppu og ýmsa erfiðleika í efnahagslífinu á síðustu árum og áratugum hefur efnahagsástandið í heiminum samt stig af stigi orðið betra og hagvöxtur verið staðreynd. 

Grundvallaratriðið er þekking og menntun

Velgengni í fortíð er ekki endilega ávísun á áframhaldandi velgengni. En þróunin og framtíðarhorfurnar gefa engu að síður góða von um að mannkynið geti horft með jákvæðum augum til framtíðar.

Það er auðvitað svo að náttúruhamfarir, uppskerubrestir og stríðsátök munu áfram herja á okkur. Og mannkynið þarf sífellt að takast á við margvísleg vandamál sem geta mögulega ógnað okkur í framtíðinni. Neikvæðar loftslagsbreytingar, fæðuskortur og orkuskortur eru dæmi um mögulegan vanda sem mikilvægt er að huga að og bregðast við.

Til að að geta tekist á við slíkar áskoranir er mikilvægt að við áttum okkur á hinum raunverulegu vandamálunum og beitum þekkingu okkar til að leysa úr þeim. Þekking er hornsteinn þess að mannkynið geti tekið skynsamlegar og réttar ákvarðanir. Og við eigum sífellt að gæta þess að útbreiða þekkingu og afla meiri þekkingar.

Almenningur og fjölmiðlar eru hrjáðir af margskonar vanþekkingu

Því miður er vanþekking samt útbreidd og útbreiddari en margir gera sér grein fyrir. Það er kannski skiljanlegt að vanþekking sé áberandi í fátækum og vanþróuðu samfélögum. Þar eru kjöraðstæður fyrir margs konar misrétti og trúarofstæki. En jafnvel í ríkustu og best menntuðu samfélögum heimsins breiðir vanþekkingin furðumikið úr sér. Rannsóknir hafa nefnilega sýnt að jafnvel fólkið í efnuðustu og best settu löndum heimsins er úttroðið af vanþekkingu.

Áhugavert dæmi um birtingarmynd slíkrar vanþekkingar er útkoman úr vanþekkingarprófinu hjá Gapminder. Sem unnið er af hinum bráðsnjalla Hans Rosling og hans fólki. Umfjöllun um þetta próf eða þekkingarkönnun má sjá víða; t.d. hér á vef CNNNiðurstöður Gapminder eru sláandi. Vanþekking á stöðu heimsins er þvílík að jafnvel apar standa sig oft betur á krossaprófunum frá Gapminder heldur en fólk almennt í ríkustu og þróuðustu löndum heimsins! Þetta á jafnt við hvort sem verið er að spyrja út í heilbrigðismál, menntamál, jafnrétti eða orkumál.

Það sem er þó jafnvel ennþá óvæntara er að niðurstöður Gapminder sýna að vanþekkingin er stundum útbreiddari hjá fjölmiðlafólki en almenningi. Slíkt leiðir vafalítið til þess að fréttir fjölmiðla reynist ansið oft byggðar á vanþekkingu og þannig geta fjölmiðlarnir smitað vanþekkingu útí samfélagið. Hætt er við að afleiðingin verði sú að samfélagsleg umræða verði skökk og jafnvel í andstöðu við staðreyndir. Vafalítið má finna ýmis dæmi um slíkt hér á Íslandi rétt eins og annars staðar.

Mestu hagvaxtarríkin eru um 2/7 mannkyns

Hans Rosling kom hingað til Íslands á liðnu ári (2014) og flutti fyrirlestur í Hörpu fyrir fullu húsi. Eitt af þeim atriðum sem Rosling fjallaði um voru orkumálin (sú umfjöllun hefst þegar rétt rúmlega klukkustund er liðin á fyrirlesturinn á myndbandinu).

Þarna kom fram að ríkasti hluti mannkyns, u.þ.b. einn milljarður af þeim sjö sem nú eru á jörðinni, notar um helming allra kolvetnisauðlindanna sem nýttar eru (kolvetnisauðlindirnar eru olía, jarðgas og kol og standa þessar orkulindir nú á bak við um 85% af allri orkunotkun jarðarbúa). Þessi milljarður manna, sem eru um 15% jarðarbúa, notar sem sagt um 50% kolvetnisauðlindanna (athugið að hlutfallstölurnar hér eru námundaðar í næsta hálfa tug).

Tveir best settu milljarðarnir af jarðarbúum, þ.e. 2/7 alls fólks á jörðinni eða innan við 30% mannkyns, notar um 75% allra kolvetnisauðlindanna sem nýttar eru. Afgangur mannkyns, fimm milljarðar manna eða 5/7 hlutar fólks á jörðinni eða rúmlega 70% mannkyns, notar einungis um 25% af kolvetnisauðlindunum sem nýttar eru hverju sinni.

Miklar áskoranir framundan í orkumálum

Rosling útskýrir að það verði ekki fátækustu milljarðar jarðarbúa sem munu valda stóraukinni orkunotkun næstu áratugina. Og að það verði heldur ekki ríkasti milljarðurinn sem muni stórauka orkunotkunina í heiminum. Heldur verða það fyrst og fremst samfélögin sem nú eru í hraðri þróun í átt að þeim lifnaðarháttum sem best setti milljarðurinn býr við.

Þessi hluti mannkyns, sem stefnir hröðum skrefum í átt að sömu hagsæld og ríkasti milljarður jarðarbúa, eru um tveir milljarðar manna. Eftir sitja fjórir milljarðar, sem vissulega munu auka orkunotkun sína hlutfallslega mikið en áfram nota mjög lítið hlutfall af heildarorkunni sem jarðarbúar í heild munu nota. En það eru áðurnefndir tveir milljarðar mannkyns sem munu valda straumhvörfum í orkunotkun jarðarbúa á komandi áatugum. Og það mun skapa miklar áskoranir.

Vesturlönd njóta ekki lengur mesta vaxtarins

Það eru sem sagt einkum tveir milljarðar manna eða þar um bil sem munu á næstu árum stórauka notkun jarðarbúa á olíu, jarðgasi og kolum. Þessi aukning í orkunotkun mun fyrst og fremst verða hjá fjölmennum þjóðum sem eru í hraðri efnahagsþróun, eins og Brasilíu (um 200 milljónir manna alls), Kína (samtals um 1.400 milljónir) og Tyrklandi (tæplega 80 milljónir manna), ásamt Argentínu (rúmlega 40 milljónir), Indónesíu (um 250 milljónir) og Perú (um 30 milljónir).

Og Rosling, sem er Svíi, minnir á að nýlega keypti kínverskt fyrirtæki (Geely) sænska þjóðarstoltið Volvo (sem áður var reyndar komið í eigu bandaríska Ford). Þetta nefnir hann sem dæmi um að efnahagslíf heimsins snúist ekki lengur fyrst og fremst um Vesturlönd. Heldur séu það miklu fremur SA-Asía, Mið-Austurlönd og S-Ameríka sem eru orðin og verða drifkraftar efnahagsvaxtar næstu áratugina (auk nokkurra Afríkuríkja, einkum í N-Afríku ásamt Suður-Afríku).

Stóraukinn kostnaður í olíuvinnslu getur hamlað hagvexti

Umrædd framtíðarsýn Hans Rosling styðst fyrst og fremst við spár um fólksfjöldaþróun. Hér verða þau fræði ekki rakin, en látið nægja að geta þess að mér virðast röksemdir Rosling’s um margt sterkar. Ein stærsta áskorunin til að framtíðarsýn hans gangi eftir hlýtur þó að vera sú hvaða áhrif þróunin á helstu vaxtarsvæðunum muni hafa á orkumálin.

Eins og ég hef nefnt á öðrum vettvangi virðist sem nánast öll sú aukna olía sem hlýtur að vera forsenda þeirrar þróunar sem Rosling sér fyrir sér, verði unnin með nýjum og afar kostnaðarsömum vinnsluaðferðum. Það mun skapa verðþrýsting á olíu um allan heim, þ.a. að til lengri tíma litið hlýtur olíuverð að fara hækkandi. Og aukin olíunotkun mun auka kolefnislosun og þar með auka líkur á alvarlegum loftslagsbreytingum.

Mun hægja á hagvexti? Kemur fram nýr orkugjafi?

Þó svo þessi álitamál séu ekki beinlínis til umfjöllunar hér, þ.e. þróun olíuverðs og kolefnislosun, er vert að hafa í huga að áframhaldandi hagvöxtur í heiminum er ekki sjálfgefinn. Og eftir því sem ég kynni mér betur gögn og upplýsingar um olíuframleiðslu er ég að verða sífellt sannfærðari um það að á næstu árum og áratugum hljóti að hægja á hagvexti í heiminum - vegna þess hversu það er orðið kostnaðarsamt að bæta nýjum olíudropum við núverandi framleiðslu.

Hvaða áhrif þetta gæti haft á þá framtíðarsýn sem Hans Rosling hefur kynnt er ekki gott að segja. Kannski mun aukin notkun á jarðgasi vinna á móti minnkandi hagvexti vegna dýrrar olíuvinnslu. En til að ná langvarandi og sterkum hagvexti til framtíðar er að verða æ líklegra að til þurfi að koma nýr, hagkvæmur og praktískur orkugjafi. Sem helst yrði að vera bæði jafn öflugur orkugjafi eins og jarðolía og hafa minni neikvæð umhverfisáhrif. Sá orkugjafi er því miður ekki ennþá í sjónmáli. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband