Alvarlegur misskilningur iðnaðarráðherra

Orkumálaráðherra Bretlands ítrekaði nýlega vilja breskra stjórnvalda til að ræða við Íslendinga um möguleikann á sæstreng milli Íslands og Bretlands. Og bauð um leið fram aðstoð við gagna- og upplýsingaöflun. Iðnaðarráðherra hefur sent svarbréf þar sem tillögu breska ráðherrans er svo gott sem hafnað. Sem er með öllu óskiljanlegt.

Aðspurð um þetta mál segir ráðherrann: „Við förum ekki að semja um verð, hvorki við Breta né aðra, fyrr en við erum búin að átta okkur á áhrifum af þessu verkefni fyrir íslenskt efnahagslíf og samfélag.“ Hér er talað í hringi. Það er nefnilega ekki unnt að átta sig á áhrifum verkefnisins nema að fá upplýsingar um helstu forsendurnar - sem eru m.a. orkuverðið og orkumagnið.

Þar að auki er afar undarleg þessi tregða að ræða við áhugasaman viðsemjanda. Nákvæmlega engin áhætta felst í slíkum viðræðum af okkar hálfu. Og Bretar eru ekki að tala um að ganga beint til bindandi samninga, heldur að viðræður eigi sér stað. Líklegt er að í slíkum viðræðum fengjust mikilvægar upplýsingar til að átta sig m.a. betur á því sem íslenski iðnaðarráðherrann vísar til, þ.e. áhrif af þessu verkefni fyrir íslenskt efnahagslíf og samfélag. En ráðherrann vill af einhverjum ástæðum alls ekki neinar viðræður af þessu tagi.

Bréf breska orkumálaráðherrans

Umrætt bréf frá breska orkumálráðherranum, Matthew Hancock, er dagsett 24. janúar s.l. (2015). Þar segir ráðherrann m.a. að rannsóknavinna sem unnin hefur verið í breska ráðuneytinu bendi til þess að slíkur rafstrengur gæti falið í sér efnahagslegan ábata fyrir bæði Bretland og Ísland. Og þess vegna sé ráðherrann áhugasamur um að skoða verkefnið nánar.

Í þessu sambandi nefnir ráðherrann að verkefnið gæti verið einn þáttur í opinberri stefnu Bretlands um aukið hlutfall áreiðanlegrar endurnýjanlegrar raforku. Bretar eru nú að verja miklum fjármunum í þessa stefnu. Í tengslum við þetta erindi breska ráðherrans er nauðsynlegt að hafa í huga að í fyrri samskiptum breskra og íslenskra stjórnvalda hefur einmitt komið fram að mögulegt sé að íslensk orka gæti notið þeirra ívilnana sem bresk stjórnvöld bjóða nú vegna endurnýjanlegrar raforku. Það eru því líkur á að mjög hátt verð kunni að fást fyrir íslensku raforkuna.

Breski ráðherrann lýsir í bréfinu áhuga sínum á að ræða þessi mál nánar við íslenska iðnaðarráðherrann. Hann býðst einnig til þess að starfsfólk breska orkumálaráðuneytisins verði íslenska iðnaðarráðuneytinu og starfshópum á þess vegum, til reiðu til að aðstoða við að afla upplýsinga um málið. Þar nefnir breski ráðherrann sérstaklega að ráðuneyti hans geti aðstoðað við að upplýsa um breska regluverkið, en það regluverk er einmitt grundvallaratriði í því hversu áhugavert verkefnið er efnahagslega.

Hér er vert að minna á að í öllum þeim skýrslum sem unnar hafa verið, bæði hér og landi og erlendis, um mögulegan sæstreng kemur fram að ein helsta óvissan er raforkuverðið. Meðal annarra helstu óvissuþátta eru orkumagnið og eignarhald á sæstrengnum. Nefndarvinna hér heima mun engu skila til að skýra þessi atriði af einhverri nákvæmni. Til að skýra þau er bæði nauðsynlegt og skynsamlegt að setjast niður með Bretum og ræða þessi atriði. Það gefur augaleið að slíkar viðræður yrðu í þeim tilgangi að skýra þessi mál, en ekki til að hlaupa í að taka bindandi ákvarðanir.

Svarbréf iðnaðarráðherra

Iðnaðarráðherrann, Ragnheiður Elín Árnadóttir, svaraði breska ráðherranum með bréfi dags. 11. febrúar s.l. (2015). Þar vísar íslenski iðnaðarráðherrann til fundar með fyrrum orkumálaráðherra Breta í mars 2014. Og tekur fram að á þeim fundi hafi komið fram skilningur breska ráðherrans á því að vegna þess hversu verkefnið sé umfangsmikið þurfi Ísland tíma til að skoða alla þætti þess vandlega - áður en til nokkurra skuldbindinga komi af hálfu Íslands.

Í bréfinu segir Ragnheiður Elín einnig og hún og ráðuneytið muni vandlega hugleiða boð breska ráðherrans um upplýsingagjöf. Og að hún sé reiðubúin að ræða málið við breska ráðherrann við hentugleika - hvort sem er í Lundúnum, Reykjavík eða annars staðar þar sem leiðir þeirra kunni að liggja saman. Af þessu virðist sem hún vilji sem sagt gjarnan ræða málið við breska orkumálaráðherrann - ef þau skyldu hittast fyrir tilviljun! Væri ekki skynsamlegra og betur fallið til árangurs að ákveða slíkan fund og undirbúa hann af kostgæfni?

Vísvitandi misskilningur iðnaðarráðherra?

Umrædd ummæli íslenska iðnaðarráðherrans um skuldbindandi ákvarðanir af hálfu Íslands eru nokkuð sérkennileg. Bretar hafa ítrekað lýst áhuga sínum á viðræðum; viðræðum sem ætlað er að upplýsa málið betur og t.d. leiða fram atriði sem eru eða kunna að vera óljós. Bretar eru ekki að bjóða eða leggja til að hittast til að taka skuldbindandi ákvarðanir. Enda er sá tímapunktur alls ekki kominn. Fyrst þarf t.d. að nálgast upplýsingar um líklega arðsemi verkefnisins og ýmis önnur áhrif, m.a. efnahagsleg og að sjálfsögu umhverfisleg. En það er útilokað að komast að þokkalega skynsamri niðurstöðu um þessi mikilvægu atriði nema með beinum viðræðum milli Breta og Íslendinga.

Ragnheiður Elín ákveður aftur á móti að stilla málinu upp þannig að Ísland þurfi að skoða málið betur - áður en unnt sé að skuldbinda sig. Þarna virðist iðnaðarráðherra okkar beinlínis misskilja ósk breska ráðherrans; hann er ekki að leggja til að setjast niður og taka bindandi ákvarðanir heldur að upplýsa málið betur. Þetta er reyndar svo augljóst að maður kemst ekki hjá því að velta fyrir sér hvort iðnaðarráðherra Íslands sé af einhverjum sökum vísvitandi að misskilja erindið eða stöðu málsins.

Af hverju þessi tregða að ræða við Breta?

Vorið 2013 var breska orkumálaráðuneytið áhugasamt um að funda með íslenskum stjórnvöldum. Það erindi fór um sendiráð Íslands í London og var búið að fastákveða fundardag þá um sumarið. En þá hafnaði Ragnheiður Elín því að ræða málið við Breta - að svo stöddu. Og það þrátt fyrir ágæta ábendingu sem sendiherra Íslands í London sendi til ráðuneytisins um að ekki stæði til að taka neinar skuldbindandi ákvarðanir heldur leitast við að upplýsa málið betur.

Ragnheiður Elín hitti svo breska orkumálaráðherrann vorið 2014 á almennum fundi þar sem m.a. var eitthvað rætt um sæstrenginn. En ennþá mátti ekki setjast niður og ræða málin formlega til að fá skýrari mynd af því. Og nú virðist árið 2015 líka eiga að líða án þess að ræða megi málið við Breta.

Þetta er mjög undarleg tregða. Vegna orkustefnu breskra stjórnvalda, sem varð að lögum 2013, er nú um stundir alveg einstaklega áhugavert tækifæri fyrir Íslendinga til að kanna með sæstreng milli Íslands og Bretlands. Bretar eru nú að verja miklum fjármunum í ný orkutengd verkefni, en það er alls ekki víst að þetta hagstæða samningsumhverfi eða tímabil standi yfir mjög lengi. Tækifærið núna er a.m.k. alveg óvenju gott fyrir okkur Íslendinga og um að gera að ganga til beinna viðræðna til að fá betri mynd af þessu tækifæri.

Hér eiga í reynd ennþá við hin skynsömu orð sendiherra Íslands í London frá 10. júlí 2013. Þegar til stóð að bresk og íslensk stjórnvöld myndu hittast í London og ræða sæstrenginn. Þá sagði sendiherrann orðrétt í tölvupósti til ráðuneytisstjóra iðnaðarráðuneytisins: „Það er mín skoðun að rétt sé að halda fundinn enda geti hann ekki talist fela í sér skuldbindingu af hálfu íslenskra stjórnvalda um málið heldur nauðsynlega upplýsingaöflun um með hvaða hætti íslensk orka gæti mögulega verið seld - á hvaða kjörum og til hve langs tíma - í Bretlandi og ennfremur hvort hún myndi falla undir þeirra ívilnunarkerfi um umhverfisvæna orku“.

Þessi orð sendiherrans eiga a.m.k. jafn vel við núna eins og þau gerðu fyrir tveimur árum. En því miður virðist sem ennþá eitt árið eigi að líða án þess að gengið verði til slíkra skynsamlegra viðræðna. Það vekur furðu - sérstaklega í ljósi þess að þarna gæti verið á ferðinni áhugaverðasta efnahagstækifæri Íslendinga og aðstæður til viðræðna eru okkur nú afar hagstæðar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband